Friday, December 05, 2008

 

Döpur augu.

Klukkan er nú rúmlega 5 að morgni þess 6. desember anno 2008. Við Raikonen snemma á fótum. Hitinn um frostmarkið og það muggar annað slagið. Þegar Hösmagi gekk til náða í gærkvöldi með Ása í Bæ í höndunum var mikið hnoðað og malað. Það var tæplega lestrarfriður. Gerði svo sem ekki mikið til því ég var þreyttur og sofnaði fljótlega. Það hefur stundum hent undirritaðan um ævina að verða dapurlegur til augnanna. Reyndar lítið verið um það á undanförnum árum. Ég sé að nóvemberpistlarnir eru aðeins 3. Augndepurðin augljós. Þegar á mánuðinn leið var hugurinn kominn í öngstræti og fátt til ráða. En Hösmagi hefur aldrei týnt lifsgleði sinni alveg. Þrátt fyrir svartnætti hugans á stundum hefur honum alltaf lagst eitthvað gott til. Það eru ekki aldeilis allir sem hafa jafn gott bakland og ég. Börnin mín 3 og eldri systkini mín 3 standa öll þétt að baki mér. Í blíðu og stríðu. Það er þeim að þakka að ég fann leiðina út úr öngstrætinu og það er komið nýtt blik í augun döpru. Það er indælt eins og jafnan áður. Þó ég sé friðsamur að eðlisfari er ég bardagamaður líka. Það hefur stundum reynt verulega á það í gegnum árin. Stundum er sagt í fréttum að þessi eða hinn séu góðkunningjar lögreglunnar. Í fyrra þurfti ég að rifja upp kunningsskapinn við skurðstofulæknana. Í annað skiptið á nýrri öld. Þá var gott að eiga skáld sem frestaði för sinni af ísaköldu landi uns gamli bardagamaðurinn var orðinn heill heilsu á ný. Það er geymt og mun ekki gleymast. Þegar ég ætlaði að tala við skáldið í gær var það nýfarið úr húsi. Ég átti indælt samtal við heitkonuna góðu. Þau koma til landsins þann 18. og það verður ljúft að sjá þau aftur. Langt og gott samtal við einkadótturina í fyrrakvöld og reyndar við yfirtengdasoninn líka. Hitti Magnús minn í gær og 2 systkini mín og átti gott samtal í síma við það þriðja.Og lítið dýr gladdi Hösmaga við heimkomuna í gær. Gleðin var gagnkvæm. Þó hér inni sé hlýtt og notalegt sit ég hér við tölvuna í ullaranum. Klærnar á hnoðandi framlöppum ná ekki í gegnum slíka verju. Lognið er algjört úti. Jólaljósunum fjölgar og þau eru kærkomin á þessum myrku og stuttu dögum. Hugsa mér til hreyfings þegar kaffidrykkju lýkur. Ætla mér svo að nota daginn til góðra verka hér heima. Nú stóðst Kimi ekki mátið og skellti sér út um gluggann. Bestu kveðjur til ykkar allra, ykkar Hösmagi.

Comments:
Jamm, velkominn í kotið að nýju og hafðu það sem best!
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online