Thursday, December 11, 2008

 

Grámi.

Ósköp finnst mér allt vera litlaust í dag. Grátt, tilbreytingarlaust og leiðinlegt. Þurraþræsingur, en hitinn samt yfir frostmarkinu. Sennilega væri þjóðráð að fara í heilaþvott. Ef það gæti losað mig við ergelsið og óróleikann. Reiðina út í fólkið sem setti þetta sker á hausinn. Reiðina yfir að megnið af þessu hyski er með allt sitt á þurru meðan almenningi blæðir. Allir yfirmenn nýju bankanna voru á kafi í drullunni í þeim gömlu. Ráðherrarnir muna ekkert, gera helst ekkert, nema þá axarsköftin ein. Aðeins toppurinn af ísjakanum er uppúr. Svindlið og svínaríið blasir þó allstaðar við neðan hans. Sumt af því á eftir að birtast okkur. En mestu svindlarnir hafa haft nægan tíma til að hylja slóð sína. Enda verndaðir af stjórnvöldum. Og rökin fyrir því að þeir fá að starfa óáreittir eru að þeir hafi svo mikla reynslu og innsýn á vandamálin að við getum ekki án þeirra verið. Embættismenn sem komust að hvað í vændum var í krafti síns embættis nýttu sér það til að verja eigin hag. T.d. ráðuneytisstjórinn í fjármálaráðuneytinu. Þetta er fullsönnuð staðreynd. Allsstaðar annarstaðar í heiminum hefði hann verið knúinn til afsagnar. En ekki á Íslandi. Þeir láta ekki snúa á sig, pilsfaldakapitalistarnir. Spillingin blívur.
SF firrir sig ábyrgð á seðlabankastjóranum DO. Hann situr þó í skjóli hennar. Trúverðugleiki SF er nú heldur klénn. Strax eftir áramót þarf að boða til kosninga. Stokka upp embættismannakerfi ráðuneytanna, reka allt gamla spillingargengið úr bönkunum, fjármálaeftirlitinu og öðrum eftirlitsstofnunum. Við eigum nóg af velmenntuðu ungu fólki sem getur tekið við. Árangurinn yrði ekki lengi að skila sér. Stórþjófarnir yrðu festir upp og eigur þeirra gerðar upptækar. M.a. annars þeir gífurlegu fjármunir sem hurfu af Icesave reikningunum sólarhringana áður en spilaborg þeirra hrundi til grunna. Þessir fjármunir eru vel faldir. Kynslóð barna og barnabarna á að ekki að greiða reikning þessara glæpona.
Þessi pistill er nú ekki uppörvandi fyrir marga og allra síst höfund hans. Samt sem áður er þetta sýn hans á ástandið hér í árslok 2008. Skaðinn sem unnin hefur verið á sálarlífi allra heiðarlegra íslendinga verður seint bættur. Það er þó flestum ljóst við hverja er að sakast.

Komin mugga í lofti og grillir vart í Ingólfsfjall. Kom heim um tíuleytið í gærkvöldi. Kimi svaf meirihluta gærdagsins. Þegar ég hafði sofið í rúman klukkutíma fannst honum kominn tími á að vekja mig. Ég hélt mildilega áminningarræðu yfir þessu dýri. Sofnaði að vörmu spori og svaf í 5 tíma í viðbót. Viðraði mig aðeins en Kimi hefur haldið sig innandyra í morgun. Reyni að halda verkum gærdagsins áfram eftir hádegi og ýta gremju og ergelsi til hliðar. Bestu kveðjur frá rauðhausunum, ykkar Hösmagi.

Comments:
Jabb, þetta er ekki alveg skemmtilegasti tími ársins fyrir helsjúka veiðimenn og golfara.
Það birtir ekki baun allan daginn, hentar samt sennilega vel fyrir alla pappírstætarana sem eru á fullu í myrkrinu.
Heyrist sem Hösmagi sé í sömu stöðu og foreldrar ungabarna hvað varðar nætursvefn. Finnst líklegt að ég mundi loka bröndótta kvikindið úti í þessari stöðu. Í það minnsta yrði áminningarræðan ekki mildileg.
 
Sakna færslu kallinn minn. Uppgjöfin er ekki okkar. Koma svo, berjast. Láttu frammarana heyra það óþvegið, ásamt öllum hinum.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online