Wednesday, December 31, 2008

 

Gamla árið senn á enda.

Það er hvít jörð á þessum síðasta degi ársins. Árs erfiðleika af völdum útrásarvíkinga og illrar ríkisstjórnar. Ef nýja árið færir okkur ekki ný stjórnvöld og þjófarnir fá ekki makleg málagjöld er ekkert réttlæti til. Þrásetu forstjóra FME og seðlabankastjóranna verður að linna. Ég fékk tölvupóst á ensku í gær. Þar er DO kallaður the biggest asshole in Iceland. Það er laukrétt. Annar af upphafsmönnum einkavæðingarinnar sem hefur leitt þjóðina á þær slóðir sem hún er nú. Mér dettur Rimbaud í hug. Ríkisstjórnin er kvikfénaður ógæfunnar. Við verðum að losna við þessa lygamerði sem einungis gera axarsköft. Flest af aulahætti en önnur meðvituð. Hugsa um eigið skinn framar öllu öðru. Við skulum festa allt þetta lið upp í næstu kosningum. Láta það dingla öðrum til varnaðar.

Ég hef ekki haft mig í veiðitúr. Hugurinn er hjá Ingibjörgu systur minni.Freysteinn mágur minn lést í fyrradag eftir mikil og erfið veikindi. Ég hef áður hér í þessum pistlum mínum líst aðdáun minni á þessum manni. Fluggreindur, góður heimilisfaðir og sérstaklega góður drengur. Ég hef einnig dáðst að æðruleysi hans sem mér er að vissu leyti óskiljanlegt. Og reyndar gildir það sama um systur mína. Það eru ekki allir sem stæðu þau áföll af sér sem þau hafa orðið fyrir um sína daga. Eftir lifir minningin um góð kynni og vináttu okkar mágs míns, sem aldrei bar skugga á í þá tæpu hálfu öld sem við þekktumst. Líf okkar hinna heldur áfram og ég vona að hið góða verði nálægt systur minni og einkadótturinni.

Það er kyrrð og rólegheit hjá okkur kisa mínum. Þó jörð hafi hvítnað er indælisveður.Ég ætla að bregða út af vananum í mat kvöldsins. Það verður lax á borðum. Það verður ljúft eftir óhemjukjötát síðustu viku. Pækillæri, hangisauður og svo svín hjá IÞM í fyrradag. Allt mjög ljúffengt. Ég strengi nú varla mörg áramótaheit. Þrátt fyrir breytta tíma er ég bjartsýnn sem fyrr. Hlakka til birtunnar og hinnar nóttlausu voraldar veraldar á komandi vori. Útiveru og veiði. Samveru við fólkið mitt sem mér er svo kært. Við Dýri sendum því öllu, ásamt vinum, okkar albestu kveðjur með ósk um farsæld til framtíðar, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online