Tuesday, December 23, 2008

 

Dagur heilags Þorláks.

Þorláksmessa. Kári er glettinn utandyra en inni er hlýtt og notalegt. Ilminn af pækillærinu í ofninum leggur hingað fram. Hlákan kætir Hösmaga þó hann geti nú unnt fólki þess að eitthvað verði eftir af snjónum um jólin. Þetta er ágætisveður en samkvæmt spám á að koma nýr hvellur þegar líður á daginn. Ég viðraði mig í morgun og það var indælt að teyga að sér hreina loftið. Bara smásnjórönd eftir á svölunum. Sagan endurtekur sig. Sá sem setti snjóinn þar er nú langt kominn með að fjarlægja hann. Við félagar sváfum mjög vel og sá yngri lét fóstra sinn alveg í friði. Hér hafa klútar verið á lofti. Ryk og skúm orðið fyrir stórárásum. Frekari umbun fæst þegar skúringum lýkur. Svo kemur nýr og ljúfur ilmur í hýbýlin þegar húsvíska sauðalærið fer í pottinn að áliðnum degi. Aldrei þessu vant hljómar rás 1 í útvarpinu. Jólakveðjurnar minna á forn jól. Þá var gamla gufan það eina sem heyrðist og dugði ágætlega. Ég ætla að gefa henni meira rúm framvegis en undanfarin ár. Miklu meira af menningarlegu efni þar en annarsstaðar.

Það er létt yfir gömlum veiðref í dag. Rólyndi hugans hefur völdin. Dagurinn í dag er dagurinn hans. Hið slæma úti í kuldanum og það er bara tilhlökkun til komandi daga. Svo verður fylgst með veðurspám fyrir dagana milli jóla og nýárs. Herconinn er á sínum stað og hefði ekkert á móti strengdum línum. Við Kimi sendum öllu góðu fólki okkar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Bestu óskir um gleðileg jól til þín og Kimi - frá mér, Söguverkstæðinu, Andra og sjö köttum, þ.á.m. Loppfríði Aramintu, Gestnýju Alexöndru,og fimm kettlingum þeim Tómasi Klaufa, Zorro, Grýlu, Kápu og einum ónefndum. Þökkum samstarfið á árinu.
 
Þetta var indæl jólakveðja. Við Kimi sendum okkar bestu jóla- og nýársóskir til ykkar Andra og hópsins ykkar.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online