Saturday, December 20, 2008

 

Skíma.

Klukkan er nú hálfellefu og aðeins að byrja að birta. Hugurinn reikar nákvæmlega 11 ár til baka. Þá bjó ég í sænska húsinu ásamt kettinum Hösmaga.Þetta var laugardagur eins og nú og næststysti dagur ársins. Mér datt allt í einu í hug að liðka Herconinn.Hitastigið var 8 gráður og ekki snjókorn á jörðu. Og hann var sannarlega við í Tangavatni. Þessi dagur mun aldrei líða mér úr minni. Ég hafði vatnið fyrir mig einan. Lognkyrrðin algjör og ekki spillti nálægð Heklu tilveru minni á þessum yndislega degi. Skáldið hafði veitt agnarsmáan Mepps spinner uppúr vatninu um sumarið. Ég hafði ekki kastað oft þegar stórurriði tók spúninn. Stærsti fiskur dagsins, 7 pund. Ég dvaldi þarna fram eftir þessum stutta degi. Ég náði í 2 sexpundara og 2 fimmpundara auk nokkurra minni fiska. Það var alsæll veiðimaður sem hélt heim á leið í rökkrinu um fjögurleitið. Þetta var einn af dögunum sem lifa í meðvitund veiðimannsins. Endurnærandi fyrir sál og kropp. Það er nóg æti í þessu vatni og þó um eldisfisk sé að ræða er hann nánast orðinn villtur eftir nokkrar vikur. Af Veiðivatnakyninu og ljúffengur eftir því. Ef jólaveðurspáin gengur eftir og þokkalegt veður verður milli jóla og nýárs, væri meira en athugandi að skjótast aftur að Heklurótum. Lyfta geði sínu og gleyma hugsunum um bananalýðveldið á meðan. Vonlausum stjórnvöldum, ónýtum eftirlitsstofnunun, óstarfhæfri afgreiðslustofnun eins og Alþingi og öllu glæpahyskinu sem leikur enn kúnstir sínar sínar við að hirða þá bita sem enn eru nothæfir úr rústunum.
Þvottavélin mallar. Ég er að safna kröftum til hreingerninga og ýmissa tiltekta. Kyrrt veður en enn mylgrar hann niður snjó. Kimi leggur ekki í hann út. Það er skötuveisla í Tryggvaskála klukkan tólf. Alveg jafngott að borða skötu í dag eins og á Þorláksmessu. Ég var kominn á fertugsaldur þegar ég loks hafði mig í að smakka skötuna. Ég hafði fordóma gagnvart þessari fæðu eins og svo margir aðrir. Siðurinn leggst aldrei alveg af, því ég hef séð talsvert af ungu fólki í skötupartýum undanfarinna ára. Ég hlakka til að byrja á þrifunum. Þegar ég hef mig í að byrja er björninn unnin og vellíðanin yfir góðu verki er góð umbun. Við Dýri sendum kærar kveðjur til alls góðs fólks. Ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online