Friday, December 12, 2008

 

Kartafla.

Stekkjastaur gaf Össuri kartöflu í skóinn í fyrrinótt. Hann er búinn að vera óþægur. Það er þó skömminni skárra að fá kartöflu en ekki neitt því það má éta hana. Solla og Geiri hafa sennilega fengið lambaspörð. Það væri a.m.k. við hæfi. Ríkisstjórnin hamast nú við að skera niður útgjöldin, hækka skatta og nauðsynjavörur. Og álögurnar bitna að sjálfsögðu mest á þeim sem minnst hafa. Á sama tíma er stjórnin að falla á tíma með málaferli gegn bretum. Sjálfstæðisflokkurinn er að klofna og fólk segir sig unnvörpum úr SF. Gott útaf fyrir sig. En auðmennirnir eru rólegir. Vita sem er að þeir fá frið meðan núverandi stjórnvöld sitja. Og yfirmenn bleðlabankans og fjármálaeftirlitsins sem allir hafa skitið á sig munu aldrei viðurkenna það þó fnykurinn standi af þeim í allar áttir. Þeir fá líka frið í musterum sínum. Musterum hrokans og valdagræðginnar. Þó ég sé löngu flokkslaus maður sýnist mér Steingrímur og hans fólk þau einu sem andæfa. Nokkrar hjáróma framsóknarraddir heyrast annað slagið. Enn örlítið lífsmark með líkinu. Framsóknarflokkurinn ber þó mikla ábyrgð á hvernig komið er eftir 12 ára legu með íhaldinu undir stjórnarsænginni. Arfur draugsins verður ekki dulinn. Sægreifans, sem skildi flokk sinn eftir í rjúkandi rústum og flúði land. Handvaldi nýjan formann sem komst ekki einu sinni inná þing.Flokkurinn er nú feigt rekald og kemst vonandi aldrei aftur til áhrifa hér enda löngu búinn að týna hugsjónunum á sinni endalausu spillingargöngu.
Hér stöðvaðist morgunpistillinn. Búinn að leggja mig í millitíðinni. Sambandsleysi á einum þræði í tölvunni. Létti sannarlega er mér tókst að finna það sem úrskeiðis hafði farið. Alhvít jörð og nokkurra gráðu frost. Það mun verða svipað veður fram undir jól. Stormur nafni minn á stöð 2 spáir 10-12 stiga hita þann 22. og rauðum jólum. Það gleður mann með snjófóbíu. Ég ætla að sækja grænu þrumuna á eftir. Fáir í bílakaupahugleiðingum þessa dimmu daga. Heimsæki kannski dóttlu og systur mína í leiðinni. Dýri húsvörður í fullu starfi á meðan. Hann er nú á sínu rjátli hér í kringum mig og við biðjum að heilsa vinum okkar, ykkar Hösmagi.

Comments:
Já, römm er drullupestin af þessu batteríi öllu. Annars get ég nú varla tekið undir í kátínu yfir rauðum jólum; hallur undir snjóinn á þessum árstíma. Í Barselónu er logn og sól þótt lágur þyki hitinn. Ég vil hafa himnesk jól, jafn hvít og snjór á litinn.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online