Tuesday, December 16, 2008

 

Skór.

Skemmtilegt myndskeiðið þegar maður grýtti skóm að Bush í sjónvarpinu í gær. Forsetinn mikli er greinilega ekki alveg heilalaus. Hann vék sér eldsnöggt frá fyrra skotinu. Annað skotið stefndi beint í fésið á kauða en hann varði snilldarlega með höndunum. Þetta er örugglega það skásta sem hann hefur gert á forsetatíð sinni.Fólk er guðsfegið að losna við Bush. Það verður fróðlegt að sjá hvort Obama stendur við loforðin. Einkum og sér í lagi hvort hann lokar fangabúðunum í Guantanamo. Þetta fangelsi hefur reyndar verið tákngervingur gerfilýðræðisins í BNA um áraraðir. Þar hefur fólk verið pyntað og kvalið. Engar ákærur. Hið algjöra réttleysi þessa fólks hefur ekki vafist fyrir Bush og félögum. Svartasti bletturinn á BNA og er þó af mörgu að taka. Vonandi fær þetta blessaða fólk frelsi sitt að nýju.
Ég fór á bókasafnið í gær. Hef sennilega ekki komið þar í ein 2 ár. Ég hef lesið nokkuð mikið að undanförnu. Gefið krossgátunum frí að mestu. Lesturinn víkkar sjóndeildarhringinn og ég gleymi vondri ríkisstjórn á meðan. Seðlabankanum, FME og glæpahyskinu. Þórbergur er sígildur. Ási í Bæ skrifar skemmtilega. Gluggað heilmikið í Þórarinn Eldjárn og Einar Kárason. Ég er rúmlega hálfnaður með Stoðir FL bresta eftir Óla Björn Kárason. Hef orðið fyrir vonbrigðum með þetta rit. Þurr upptalning á tölum, nöfnum, prósentum og skúffuhlutafélögum. Þó er ritið upplýsandi um þankagang útrásarvíkinganna. Græðgi þeirra og fullvissu um að tilgangurinn helgi meðalið. Þeir eru nú nánast allir erlendis og njóta þar ávaxtanna af iðju sinni. Peningarnir okkar sem þeir stálu, í öruggri höfn þeirra. A.m.k. meðan við höfum núverandi valdhafa yfir okkur. Það er ekki hægt að spóla tímann til baka. En það er hægt að skipta um valdhafa og hætta að vernda glæpamennina. Hin bókin sem ég fékk að láni er Laxveiðar í Jemen í þýðingu skáldsins míns. Hún bíður næstu kvölda. Nú eru líka stórubrandajól. Fimm frídagar í röð. Ég þarf að vísu að ljúka nokkrum verkefnum hér heima en tíminn er nægur. Nú styttist í heimkomu Sölva og Helgu. Það er tilhlökkunarefni. Ég mun líka hitta hin börnin mín og öll barnabörnin á aðfangadag.Það verður einnig ljúft. Þrátt fyrir allt er ég með væntingar til nýja ársins. Það verður örugglega betra en það sem nú er að enda. Bjartsýnin, vonirnar um betri tíð og ástin til lífsins eru enn til staðar. Lífsbaráttan að vísu þyngri en undanfarin ár. Við breytum ekki gangi hins liðna. En það er hægt að bretta upp ermar og berjast. Berjast fyrir réttlátara þjóðfélagi með annari tekjuskiptingu en tíðkast hefur. Berjast með kjafti og klóm gegn rotnuninni og spillingunni í þjóðfélaginu. Treysta á að ungt og velmenntað fólk með hreint mannorð taki við. Nýr gunnfáni og ný gildi. Þrátt fyrir gamla hyskið eru enn tækifæri á þessu blessaða skeri. Þau eigum við að nýta í þágu allra en ekki bara örfárra.

Við Dýri minn höfum það bara nokkuð gott. Vöknuðum eldsnemma og tókum hvor öðrum fagnandi að venju. Veðrið verður svipað út vikuna. Hitinn dansar í kringum núllið. Nokkuð bætst í snjóinn en ég ætla að sætta mig við það þó ég sé nú ekki par hrifinn af honum. Sem sagt gott. Bestu kveðjur frá okkur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Jammí, fátt betra en að liggja undir sæng í svona veðri með góða bóka og láta skítapakk heimsins lönd og leið. Hafa spár um rauð jól annars breyst eitthvað?
 
Eftir næstu helgi er spáð umhleypingum. Það er betra að hafa staðviðri.Þá veit maður líka hvaðan veðrið stendur á mann. Svo breytir þetta ekki öllu því mest verður að gera við að rífa í sig og hafa það náðugt við bóklestur.Jólaveðrið ætti að verða nokkuð ljóst um næstu helgi.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online