Wednesday, May 23, 2007

 

Ný stjórn.

Ný ríkisstjórn er að taka við völdum. Verður vonandi skárri en sú sem er að kveðja. Hinn nýi umhverfisráðherra kaus gegn Kárhnjúkavirkjun á sínum tíma. Vona að hún standi vaktina vel og ég óska henni velfarnaðar í starfi. Það á að vísu eftir að gera málefnasamninginn opinberan. Kannski hefur nýi utanríkisráðherrann umboð og þor til að taka okkur af lista hinna morðóðu þjóða? Og biðja um leið írösku þjóðina afsökunar. Þann hluta hennar sem enn lifir. Líklega best að sleppa frekari hugleiðingum um stefnuna , uns plaggið verður birt eftir hádegi í dag. Ljóst er þó að við eigum von á frekari einkavæðingu í heilbrigðisgeiranum. Það er ekki tilhlökkunarefni. En ekki mun ég sakna Sturlu úr samgönguráðuneytinu. Hef aldrei skilið veru hans þar. En mér hefur alltaf fundist svolítið vænt um Jóhönnu. Treysti henni vel í félagsmálum og öðrum velferðarmálum og vonandi tekst henni að laga ástandið í þeim efnum. Allt mun þetta skýrast á næstu vikum. Það er nauðsynlegt að vel takist til og ég ætla ekki að mála skrattann á vegginn fyrirfram. Allir verða að fá sín tækifæri, en ég hefði viljað vinstrisinnaðri ríkisstjórn. Einkum stjórn, sem hefði tekið af skarið í umhverfismálum. Einn harðasti stuðningsmaður stóriðjustefnunnar í SF er nú orðinn ráðherra. Það er ekki góðs viti. Hefði nú heldur viljað sjá varaformanninn í stjórninni. En hann á víst að passa flokkinn meðan Solla heimsækir vinkonur sínar í dana- og svíaveldi. Og vini sína í Brussel. Vonandi betur talandi enska tungu en fráfarandi utanríkisráðherra.
Nú getur Véfréttin sagt af sér. Búið spil barasta og heldur stutt gaman. Erfiðir tímar framundan hjá leifunum af framsóknarflokknum. Hann sleikir nú kaun sín eftir sögulegt afhroð í kosningum.Kannski ber fólkið, sem enn er þarinnanstokks, gæfu til að snúa við blaðinu. Horfa í eigin barm og hætta að kenna öðrum um ófarir flokksins. Hætta að trúa á drauga og komast aftur til meðvitundar.

Það hefði einhverntímann verið sagt að nú væri fallegt veður til að skapa. Gamla sveitaþorpið, sem nú er orðið að bæ, er að vakna í glaðasólskini. Bestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online