Thursday, May 31, 2007

 

Guðfaðirinn.

Lagði það á mig að hlusta á formenn stjórnmálaflokkanna í sjónvarpinu í gærkvöldi. Sé reyndar eftir að hafa ekki þraukað eftir Guðfríði Lilju. Samkvæmt bloggurum á mbl. ku hún hafa haldið góða ræðu. Kemur mér ekki á óvart. Sömu bloggarar segja Steingrím reiðan og fúlan eftir eigin "afleiki" að undanförnu. Það sannast hér hið fornkveðna. Sannleikanum verður hver sárreiðastur. SF með formanninn í broddi fylkingar kennir honum um svik SF við eigin stefnu og hún hafi ekki átt annan kost í stöðunni en að þjóna íhaldinu til sængur. Þetta er auðvitað svo fáránleg della að það er ekki nokkru lagi líkt. Stóri flokkurinn, mótvægið við íhaldsöflin, svíkur eigin kosningaloforð áður en byrjað er á dodoinu undir sænginni. Og allt VG að kenna. Sannleikurinn er allt annar. Það sjá flestir sem hafa nokkurnveginn óbrenglaða dómgreind. Það er búið að benda á ýmislegt sem nánast staðfestir að þetta samstarf var í raun komið á laggirnar fyrir kosningar. Það voru reyndar öfl innan sjálfstæðisflokksins sem vildu lofa ISG að dingla í snörunni. Þau urðu undir svo hún slapp með skrekkinn. Það var sagður góður andi í viðræðum flokkanna um stjórnarmyndun. Hún var þessvegna mjög auðveld enda ISG reiðubúin að fórna hverju sem var fyrir lífgjöfina og ráðherrastól. Þannig tókst henni um leið að fresta óhjákvæmilegu uppgjöri í eigin flokki. Eru menn strax búnir að gleyma því að SF undir hennar forustu tapaði 14% af fyrra fylgi sínu þrátt fyrir fádæma illa séða ríkisstjórn íhalds og framsóknar. Það eru auðvitað vinstri græn sem urðu sigurvegarar í þessum kosningum. Og það er næsta víst að sigurinn hefði orðið enn stærri ef ekki hefði komið til annað framboð umhverfisvina. Kannski er hægt að telja einhverjum úr SF, Framsókn og Sjálfstæðisflokki trú um að Steingrímur Sigfússon beri höfðuðábyrgð á núverandi ríkisstjórn. Raunverulegir vinstrisinnar, umhverfisvinir og aðrir þeir sem vilja róttækar breytingar í íslenskum stjórnmálum sjá í gegn um svona kúnstir. Það er augljóst slíku fólki að ISG er nú að reka síðasta naglann í kistu SF sem mótvægisflokk við íhaldsöflin. Við þurfum þó væntanlega að bíða nokkuð eftir jarðarförinni. Þangað til getur formaður SF hallað sér makindalega í ráðherrastólnum. En hætt er við að eftir næstu kosningar verði SF svona á stærð við Alþýðuflokkinn gamla þegar verst lét hjá honum. Það verða nöturleg eftirmæli um hinn (hugum)stóra hugsjónaflokk jafnaðarmanna. Og allt bölvuðum rokknum frá Gunnarsstöðum að kenna.

Sumarið er komið yfir sæinn. Hitinn í tæpar 18 gráður í gær. Júní byrjaður og ég var að skrifa reikninginn fyrir maí. Gott að geta greitt öll útgjöldin um þessi mánaðamót.Hítin er stór og gleypir feginn við. Olíumafían hækkar stöðugt bensínverðið á meðan gengið sígur. Var ekki einhver að tala um samráð hérna um árið? Nú er það smálúr fram að vinnu og helgin að renna í hlað. Kærar kveðjur frá okkur rauðhausliðum, ykkar Hösmagi.

Comments:
Hressilegur pistill hjá þér, nafni (þó að ég sé raunar held ég á öndverðum meiði við þig um allt sem þar kemur fram, en það er eins og það er).
Skil samt ekki hvernig þú færð út þessi 14% í fylgistapi Sf.
 
Mig minnti þetta nú bara. Hafa skal það sem sannara reynist. Fylgistap SF var nákvæmlega 11,55% þ.e. úr 30,95% 2003 í 26,8% 2007. Það segir auðvitað ákveðna sögu um ISG og stóra flokkinn ykkar. Ég leyfði mér nú að þrykkja þessum pistli á vefinn í morgun, aðallega sjálfum mér til skemmtunar. Bjóst nú ekki við að allir yrðu mér sammála Bestu kveðjur nafni minn góður. Hösmagi, hress í morgunsárið.
 
Hárrétt. Mikið væri heimurinn enda leiðinlegur ef allir væru alltaf sammála um alla hluti.
Skil nú hvað þú varst að fara í útreikningnum. Ég sá ekki alveg hvernig 4% tap (úr 31 í 27) var allt í einu orðið 14%. En þá varstu auðvitað að tala um hlutfallið af fyrra fylgi. Best annars fyrir mig að hætta mér ekki út á hálan ís stærðfræðinnar, máladeildarmanninn úr MR.
Annars held ég nú að flestir séu sammála um það að fylgið 2003 var fyrst og fremst til komið vegna innkomu ISG í landsstjórnmálin það ár. Ekki trekkti Össur alla vega, og hefur aldrei gert, svo mikið er víst.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online