Monday, May 28, 2007

 

Bati.

Ég hélt á tímabili í gær að ég yrði að skera hausinn af mér til að losna við verkinn. Við minnstu hreyfingu var eins og verið væri að sarga með hníf innan úr hausnum. Það var hreinlega farið að síga verulega í mig. Ég þraukaði og lagði það ekki á mig að reyna að ná sambandi við doktor. Minnugur þess að yfirleitt læknast maður af sjálfu sér. Einhvernveginn tókst mér að sofna. Vaknaði snemma að venju og viti menn: Allt annað líf. Veit reyndar af þessu enn en trúi að mér sé að snarbatna. Kannski klemmd taug eða bólgnir hálsvöðvar. Horfi nokkuð björtum augum fram á daginn. Það er bara ágætt að láta minna sig á það annað slagið að góð heilsa er ekki sjálfgefin. En, sem sagt, stálsleginn Hösmagi við tölvu sína. Nú hefur hlýnað talsvert og hitinn náði 12 gráðum í gær. Ládauður sjór á Eyrarbakka þegar ég kíkti í fjöruna í gær. Ósköp notalegt að vera í fríi í dag og veiðifiðringurinn gerir vart við sig. Það er ákaflega góðs viti. Sé til á eftir. Svo sem ekki langt í Tangavatn á grænu þrumunni. En það er að styttast í heimkomu skáldsins og vötnin sunnan Tungnaár bíða. Laugarnar og Kirkjufellsvatn. Innan við mánuður í laxinn og áin er nú geysifalleg eftir kælu undanfarinna daga. Ég hef svo sem lítið lagt mig eftir að veiða lax á flugu. Flest sumur liðið án þess ég hafi reynt það. Ég ætla að gefa henni séns í sumar. Kominn tími til eftir að hafa stundað laxveiðar í hálfan fjórða áratug. Alltaf jafn skemmtileg iðja. Þessi unaðslegasti tími ársins er runninn upp einu sinni enn. Sannarlega hlakkar undirritaður til komandi bjartra daga. Áin, sem ég er alinn upp við og vötnin á hálendinu bíða. Endur og Himbrimar og lyktin ljúfa þegar landið angar. Vellíðunarkennd með góðan bata og hugurinn í góðu jafnvægi.Unaðslegt.

Raikonen utandyra nú. Ekki amalegt fyrir lítið dýr að spóka sig í blíðunni. Þrjú kíló af rækjum í frystinum. Aldrei að vita nema fóstri verði hupplegur á þessum indæla degi. Það er allavega víst að mér finnst kisi minn alls góðs maklegur. Við sendum ykkur okkar albestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Já, það verður sannarlega gaman að taka einn í Klettsvíkinni í sumar. Bestu kveðjur frá Skotalandi, SBS
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online