Sunday, May 13, 2007

 

Slys.

Ekki átti það fyrir þjóðinni að liggja að fella ríkisstjórnina. Hún er að vísu nokkuð löskuð eftir kosningarnar og skútan varla sjófær á eftir. Formaður framsóknar liggur í valnum. Ætti að sjálfsögðu að segja af sér strax. Sjaldan hef ég orðið vitni að öðrum eins aulagangi hjá frambjóðanda í þingkosningun. Spá mín um að hann verði eini formaður flokksins sem aldrei verður þingmaður hefur rætst. En það er samt enn stórhætta á ferðum. Valdasýkin er söm og áður þrátt fyrir herfilega útreið. Árangur áfram ekkert stopp. Árangur í að skara eld að eigin köku, einkavæðingu og álverksmiðjum.Ég hef enga trú á að stjórnarandstaðan geti endurhæft framsóknarflokkinn kæmi sú staða upp að þeir tækju hann með sér í stjórn. Eina von umhverfissinna nú er næstskásti kosturinn. Ríkisstjórn VG og íhaldsins. Hún hefði 5 sæta þingmeirihluta og það ætti að duga nokkuð vel. Þá yrði Landsvirkjun áfram í eigu þjóðarinnar og náttúran fengi grið í bili. Nú á VG orðið þingmenn í öllum kjördæmum landsins. Fylgi flokksins jókst um ríflega 60%. SF telur sig hafa unnið varnarsigur. Missti 2 þingmenn og það er nú tæplega viðunandi. Það verður ekki séð að þjóðin vilji nýta sér " sögulegt tækifæri" á að Ingibjörg Sólrún verði verkstjóri í nýrri ríkisstjórn. Daðrið við Brusselmafíuna er ein af orsökunum. Þar eru VG og íhaldið nokkuð sammála. Við verðum líklega að bíða í nokkra daga og sjá hvernig málin þróast. Úr því sem komið er væri langaffærasælast að þessir 2 sigurvegarar kosninganna tækju höndum saman. Kannski gæti það líka orðið til þess að framsóknarflokkurinn gæti endurhæft sjálfan sig.Það virðist þó borin von með núverandi forustu.

Bjart veður og gjóla. Köld gjóla. Vonandi fer að hlýna. Skáldið á heimleið og græna þruman í startholunum fyrir Frostastaðavatn og Landmannalaugar í byrjun júní. Eldri sonurinn verður með í för og sannarlega hlakka ég til. Þrátt fyrir mislynd veður í pólitíkinni ætla ég að njóta sumarsins. Ölfusárlax og Veiðivatnaurriði. Framtíðarlandið á Syðri-Brú væntir mín og ég þess. Raikonen virðist slakur yfir úrslitum kosninganna. Hin góða vinátta okkar blómstrar sem áður.Kosningarækjur í gær og restin í dag. Látum hverjum degi nægja sína þjáningu sem fyrr. Við sendum ykkur góðar kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online