Tuesday, May 29, 2007

 

Sól og ostur.

Nú klukkan 20:30 er sól enn hátt á lofti. Hitinn fór í 15,4 gráður hér í dag og það er nú hæsti hiti ársins. Held að þetta hlýja loft sé að þrýsta sér hingað frá Rússlandi. Gamli komminn í Hveragerði, sem ég sagði einhverntíma frá hérna, hefði orðið glaður ef hann væri ofanjarðar. Sá sem hleypti úr varadekkinu af Rússajeppanum inní stofu. Að vísu er nú Snorrabúð stekkur þar eystra. Bara Pútín og mafían. En mér er sama hvaðan þetta hlýja loft kemur. Allir orðnir hundleiðir á kuldaskítnum hér að undanförnu.
Í gamla daga fór ég oft í mjólkurbúðina í MBF. Einhvernveginn lögðust þessar ferðir af. Þar er nú meira úrval af ostum en í öðrum búðum hér austan heiðar. Ég hef verið nokkuð sáttur við Ísbúann sem fæst í Nóatúni. Nokkuð bragðmikill og góður ostur. En svo frétti ég að búðin í MBF lumaði á frábærum osti. Það er gamle Ole, danskur að uppruna. Svo ég leit þar inn á leið heim úr vinnu í dag. Þar gaf á að líta. Ég nánast slefaði af að sjá þessa dýrð. Þarna var gamli Óli, sem hlýtur að vera stolt þessarar verslunar. Og ég fékk að smakka áður en ég keypti. Þetta er unaðslegt lostæti. Keypti mér allstórt stykki og brá ekki einu sinni þegar ég heyrði verðið. 2.200 kr. kílóið. Svona tvöfalt verðið á Ísbúa. Ég hugsaði nú bara að maður væri að kaupa allskonar kjötálegg fyrir hærra verð. Þessi gamli ostur er sérlega bragðgóður. Sterkur vel og líklega betra að borða hann eftir vinnu en fyrir. Ég skar þykka sneið af þessari mjólkurafurð og bútaði hana niður. Svo hófst bara sælkerakvöld. Osturinn bráðnar í munni. Líklega hægt að éta yfir sig af honum eins og flestu öðru. En ég ætla alltaf að eiga bút í ísskápnum. Fá mér svona bragð annað slagið. Ég ætla aftur í þessa búð og fá að smakka fleiri osta. Ostaframleiðslunni hér hefur fleygt fram. Geysigott framboð á góðum ostum. Gamli Óli hlýtur líka að vera óhemjugóður í sósu. Ég verð líklega að fara að experimenta.
Raikonen stunginn svefnþorni. Og gamli Hösmagi gengur reyndar brátt til sængur. Svona eins og ein krossgáta áður en ég velt útaf. Með sól í sinni og ost í maga. Bestu góðviðriskveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Já Gamli Ole er snilldin tær. Við HS keyptum einmitt tvö stór stykki á Kastrup flugvelli í fyrra á leið okkar til landsins, annað reyndar með viðbættu kúmeni. Sá er heldur mildari og er mér ekki alveg jafnkær þótt góður sé. Hvorir tveggja lostæti á brauð og í gómi. Á morgun leggjum við í hann til landsins. Hugum brátt að veiðitúr. Bestu kveðjur, SBS
 
Eitthvað rámar mig í að til hafi líka verið eitthvað sem hér Gamle Oles farfar. Sá var (og er væntanlega) mun rammari og lætur Gamla Ole líta út eins og hvern annan skólaost.

Annars merkilegt að ég hef lítið velt þessum dönsku gúrme-ostum fyrir mér, þrátt fyrir að vera staddur í sjálfri Mekka. Þyrfti að bæta úr því, kannski bara í næstu búðarferð.
 
Farfar. Djöfull væri gaman að komast aðeins í kynni við afa gamla. Kannski yrði maður að fá sér eitthvað hjartastyrkjandi áður.
 
Mér heyrist nú Sigurður minn að eitthvað annað en gúrmelíf sé þér ofarlega í huga, ef marka má maraþonfærslur þínar. Þú veist þú munt aldrei frá frið vegna þeirra, aldrei frið ... Hvar hafa dagar ... hehe ... hvar hafa dagar?
 
Maraþondagar eru búnir. Dagar osta og bjórs snúnir aftur. Engar áhyggjur.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online