Wednesday, May 16, 2007

 

Af Nýjagarði.

Á árunum 1965-1969 bjó ég á Nýja-stúdentagarðinum við Háskóla Íslands. Eins manns herbergi, kjallari og 3 hæðir. Í herbergjunum var svefnsófi, skrifborð og stóll. Kannski voru stólarnir 2. Fataskápur og mundlaug.Svo var íbúð í kjallarnum fyrir svokallaðan garðprófast. Svona einskonar húsvörð. Held að þetta hafi verið ólaunað starf nema ekki þurfti að borga leigu fyrir íbúðina. Meðan ég dvaldi þarna var lengst af garðprófastur Árni Böðvarsson cand. mag. og svo Gunnar Björnsson, nú sóknarprestur hér á Selfossi. Prýðisnáungar, báðir tveir.Þarna var ágætt að vera. Stutt í skólann, miðbæinn, súlnasalinn á Sögu á laugardagskvöldum og Astrabar í sama húsi á sunnudögum. Steinsnar í Háskólabíó. Salerni og þvottahús á hverri hæð og lítið eldhús.
Ýmsar sögur gengu meðal háskólanema um lífernið og tilveru íbúanna í þessu húsi. Og ekki allar parfallegar. M. a. heyrði ég um mjög sérstakt hátterni Laugvetninga. Þeir væru svo latir og ódannaðir. Nenntu ekki fram á salernið fyrir smámuni. Migu einfaldlega í vaskinn. En sumir voru nú skárri en aðrir. Þeir skrúfuðu frá, létu renna, tæmdu svo blöðruna og létu renna smástund á eftir. Í öðrum flokki voru þeir sem migu bara án nokkurra tilfæringa og létu renna aðeins til málamynda á eftir. Og svo þeir alverstu. Migu bara í vaskinn. Punktum og basta. Ekkert að ómaka sig með því að skrúfa frá krana. Ég skemmti mér ágætlega yfir þessu. Við vorum þarna nokkrir Laugvetningar og létum okkur þessar sögur í léttu rúmi liggja. Það var stundum glatt á hjalla á Nýja Garði. Veigar stundum teygaðar ótæpilega og öldurhúsin stunduð af kappi. Held þó að við höfum ekkert verið verri en annað ungt fólk á þessum árum. Tilefni til skemmtana og drykkju svona viðlíka og nú á dögum. Einn norðanstúdent spurði mig einu sinni hvort það væri rétt að ég hefði sérstakt embætti hjá Laugarvatnsstúdentum. Sem fælist í því að finna verðug tilefni til að detta íða. Mér fannst þetta svo sniðugt að ég sagði honum að þetta væri hárrétt. Ég hefði verið talinn með næga hugmyndaauðgi til finna stöðug tilefni til að fá sér í glas. Og stæði mig frábærlega í þessu djobbi. Mér fannst ég sjá vott af öfund skína af andliti hans. Var bara andskoti upp með mér af þessu. Einhvernveginn tókst okkur Laugvetningum nú samt að ljúka prófum frá þessum ágæta skóla. Ég býst heldur ekki við að nokkur okkar hafi migið í mundlaugar Nýja Garðs. En það getur meira en verið að ég hafi nú verið seigur við að finna tilefni til fagnaðar þó ég hefði ekkert kjörbréfið til þess. Það var allavega blásið til ölvunar annað slagið.

Enn heyrist lítið frá þeim Jóni og Geir. Því meira af kjaftasögum í gangi. T.d. um leyniviðræður VG og íhaldsins. Það eru örugglega fleiri að tala saman en Jón og Geir, Gissur, Héðinn og Njáll. Við bíðum og sjáum hverju fram vindur. Bestu kveðjur úr blíðunni eftir smá úrfelli, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online