Sunday, May 27, 2007

 

Heljarslóð.

Stríðið í Írak heldur áfram. Af fullu brjálæði sem fyrr. Hvað skyldu margir deyja á hvítasunnudag?

Er Johnny kom heim af heljarslóð
á hlaðinu gömul kona stóð
og sagði; Ég orðin er ellimóð,
en eitthvað mér sýnist þú breyttur.

Við lúðrablástur og bumbuslátt
þú brytjaðir fjölda manns í smátt,
og fyrir það var þér hossað hátt.,
en hví ertu svona breyttur?

Ó, hvar eru augun blá og blíð,
sem brostu við mér forðum tíð,
er heiman þú fórst og hélst í stríð?
Æ, hví ertu svona breyttur?

Og hvar eru þínar hendur tvær,
og hvar er þinn fótur og þínar tær?
Og hvar er nú hlátur þinn hár og skær?
Æ, hví ertu svona breyttur?

Hvað gerðu þeir við þitt glæsta hár,
sem gljáði og skein eins og hrafnsvængur blár?
Og hvers vegna er kúpa þín hvít sem nár?
Æ, hví ertu svona breyttur?

Það þekkja víst flestir þennan söng. Textinn er Jónasar Árnasonar. Sá maður hataði stríð eins og ég. Stuðningur yfirnagarans og draugsins er öllum kunnur. Við erum á lista yfir hinar vígfúsu þjóðir. Vígfúsu. Hugleiðið það. Fús til að drepa saklaust fólk.Brjálaðir menn komu þessu af stað á upplognum forsendum. Og svo halda menn því fram að að þetta hafi verið rétt " miðað við þær upplýsingar sem þá lágu fyrir" Gott og vel. Nú vita allir betur. Samt má ekki taka okkur af þessum lista. Það væri þó táknrænt innlegg okkar í baráttu fyrir friði. Jafnframt því að biðja írösku þjóðina afsökunar.
Hvað skyldi ISG oft hafa lofað því í ræðu og riti að þetta yrði gert ef SF kæmist til áhrifa? Og það er móðgun við almenna skynsemi að réttlæta svikin með því að halda því fram að VG hefði gefið eftir í þessu máli fyrir ráðherrastóla. Mönnum eins og nafna mínum ekki sæmandi. Fyrstu skref SF á ríkisstjórnarveginum lofa ekki góðu. Legg til að fáninn um Fagra Ísland verði dregin niður til hálfs. Eða tekinn niður og pakkað niðurí skúffu.

Sama staðviðrið. Kalt á nóttunni en þokkalegt yfir hádaginn. Við Kimi búnir að vera lengi á rjátli. Einhver andskotinn að plaga mig í hálsvöðvunum. Meira en lítið.Þarf að fara mér hægt ef ég lít um öxl. Verkinn leggur upp í haus við minnstu hreyfingu. Held þó að leifarnarar af heilabúinu séu þar enn. Við fósturfeðgar sendum ykkur öllum góðar kveðjur úr bjartviðrinu, ykkar Hösmagi.

Comments:
Heldur einhver í alvörunni að Sjálfstæðismenn hefðu einhvern tíma fallist á að láta fjarlægja nafn Íslands af þessum lista, hvort sem er fyrir atbeina VG eða Sf? Það er álíka raunhæft og VG hefðu náð því fram að Ísland ætti að ganga úr NATÓ á kjörtímabilinu.

Ég vil gjarnan fá að heyra hvaða rökum VG hefðu beitt til þess að sveigja D inn á þá skoðun. Að sjálfsögðu hefði það alls ekkert gengið betur.

Eini sénsinn sem fyrir hendi var til þess að fjarlægja okkur af þessum lista var myndun vinstristjórnar en VG hafði engan áhuga á því. Því fór sem fór.

Það er afskaplega auðvelt að vera prinsippfastur og alltaf í stjórnarandstöðu. Þá getur maður nefnilega alltaf sett hlutina þannig upp að maður "hefði nú gert hlutina svoleiðis miklu betur sjálfur".

En þeir sem eldri eru en tvævetur í pólitík eru auðvitað ekki svo naívir að halda að VG séu hótinu betri en allir aðrir. Auðvitað eru þeir það ekki þegar á hólminn er komið.

Af hverju var forveri VG, Alþýðubandalagið, til dæmis mestalla tíð á móti verunni í NATÓ en hætti hins vegar að krefjast úrsagnar úr NATÓ í stjórnarmyndunarviðræðum frá árinu 1978? Af hverju stóð Steingrímur J. ekki upp og mótmælti í ríkisstjórn sem hann sat í 1988-1991 sem lýsti stuðningi við fyrra Persaflóastríðið? Hvar var prinsippfestan þá?

VG væri nefnilega nákvæmlega eins pragmatískur flokkur. Vandamálið við VG er bara hvað þeir þykjast vera skinhelgir og ólíkir öllum hinum þrátt fyrir að vera það alls ekki þegar allt kemur til alls (sjáðu bara Mosfellsbæ og Árborgina þína góðu).

Gleðilegan hvítasunnudag annars og bestu kveðjur frá skýjaðri Kaupmannahöfn frá einlægum aðdáanda nýskipaðs utanríkisráðherra (bara djók).

...annars er ótrúlegt hvað okkur tekst alltaf að metast um ágæti þessara systurflokka okkar á vinstri kantinum.
 
Í fyrsta lagi. Það var enginn möguleiki á vinstri stjórn. Í öðru lagi hef ég aldrei haldið því fram að sjálfstæðismenn hefðu fallist á að taka okkur af listanum. Ég sagði einungis að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefði svikið kosningaloforð og það væri ekki góð byrjun í nýrri ríkisstjórn.Og það er ekki stefna VG hér í Árborg sem fulltrúi flokksins er að leggja lið með félögum þínum í SF. Enda ætla ég að leggja til að hann verði rekinn úr flokknum. Ég sárskammast mín fyrir að hafa kosið hann. En það er erfitt að rökræða þessa hluti þegar forustumönnum VG eru sífellt gerðar upp skoðanir. Ekki er ég að því gagnvart SF. Þar tala verk ISG best af öllu. Það er bara óumdeilanleg staðreynd. Og ég hef ekki áður heyrt að SF og VG séu systurflokkar. Hægri kratar hafa alltaf verið enn verri ólíkindatól en íhaldið. Maður veit þó svona yfirleitt hvar maður hefur það.
 
Best að hætta þessu þrasi og óska bara gleðilegrar Hvítasunnu. Báðir flokkar hafa margt ágætt fram að færa.
 
Já, nafni minn góður. Ég tek undir það að það er mikið af góðu fólki í báðum þessum flokkum. Og það er líka margt miklu skemmtilegra en að þrasa um pólitík. Bestu kveðjur til Köben. Kannski að ég bæti bráðum úr fjarveru minni frá þessari borg. 27 ár síðan ég heimsótti þessa indælu borg. Er ekki Hvítur enn á sínum stað?
 
Jú, Hvítur er hér enn, Litla apótekið og skjöldurinn hans Jónasar líka.

Kaupmannahöfn svíkur engan.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online