Tuesday, May 08, 2007

 

Lokadagur framundan.

Samkvæmt gömlum blöðum var lokadagur vertíðar þann 11. maí. Daginn eftir á að verða lokadagur ríkisstjórnar íhalds og framsóknar. Besta leiðin til þess er að kjósa VG. Eins og staðan er nú samkvæmt könnun Capacet Gallup tvöfaldar VG þingmannatölu sína. Það er nú túlkað með ýmsum hætti. Allir flokkar nema VG og Sjálfstæðisflokkurinn eru undir kjörfylgi sínu í síðustu kosningum. Eftir að hafa nýséð kjördæmaþátt í sjónvarpinu fékk ég enn eina sönnun þess að allir flokkar, sem nú eiga fulltrúa á þingi vilja áframhaldandi rauslahauga frá nýrri stóriðju, að VG undanskildum. Sá flokkur er trúr stefnu sinni og er ekki með nein undanbrögð. Hvorki á Húsavík né annarsstaðar. Allir sem vilja víkja stóriðjustefnununni til hliðar verða að kjósa VG. Og falli ríkisstjórnin mun það verða VG sem á þar stærstan þátt. Hinir stjórnarandstöðuflokkarnir standa í stað eða missa þingsæti samkvæmt nýju könnuninni. Enda hamast nú framsóknarflokkurinn á VG eins og naut í flagi. Ég efast um að þjóðin hafi upplifað jafn ómálefnalega baráttu áður. Vonandi verða þessi vinnubrögð til að fækka fylgisfólki framsóknar enn meira. Og það gæti gert gæfumuninn við að koma þessari afleitu ríkisstjórn frá völdum. Kannski var við því að búast að aftur drægi sundur með VG og SF.Ég hef áður sagt að mikilvægt sé fyrir vinstra fólk og umhverfisvini að láta ekki villa sér sýn. Agentar SF hringja nú með skipulögðum hætti í fólk sem það grunar um stuðning við VG. Hafa fáu gleymt frá síðustu kosningum. Þeim væri nær að reyna fyrir sér á annan hátt. Mikilvægast er auðvitað að þessir flokkar standi einarðlega saman um það sem þeir eru sammála um. Og láti annað liggja milli hluta. Við fellum ekki ríkisstjórnina á þennan hátt. Við þurfum að vinna fylgi frá stjórnarflokkunum en ekki hvor frá öðrum. Ýta öfund, persónulegum metnaði og illdeilum til hliðar. Þannig gæti ætlunarverk okkar tekist.
Það á eftir að kjósa og telja uppúr kössunum. Ég verð lokaður inni kl. 17 á kjördag með yfirkjörstjórn Suðurkjördæmis og fleira góðu fólki. Losna klukkan 22 þegar kjörfundi lýkur. Svolítið spennandi. Kannski verð ég að hafa nikótínjórturleður með mér. Mikilvægast af öllu er að fella stjórnina. Það gæti vel tekist. Og þungamiðjan verður stuðningurinn við VG. Verði sigur græna flokksins nógu stór verður varla fram hjá honum gengið. Þá gæti landið og náttúra þess brosað á ný. Og svona í leiðinni skal það upplýst að Hösmagi á orðið slóð á Moggablogginu. Kannski ekki langlífa. hosmagi.blog.is

Enn albjart um tíuleytið. Púðinn undir kot kærleikans gæti orðið staðreynd í næstu viku. Lagði drög að því dag. Það er fleira spennandi en kosningar. Verða annars ekki allir fegnir þegar þær verða afstaðnar? Sumarkveðjur frá rauðhausunum róttæku, ykkar Hösmagi.

Comments:
Feginn kannski ... en óttast ad vonbrigdin verdi léttinum yfirsterakari.
 
Íslandshreyfingin hans Ómars hlýtur nú að vilja stóriðjuna burtu líka, er það ekki?
 
Menn verða nú að geta lesið rétt. Ég hef aldrei efast um einlægni Ómars Ragnarssonar. Ég var að tala um flokka sem eiga fulltrúa á þingi. Þar er VG einn með hreint borð. Meira en helmingur SF kaus með Kárahnjúkavirkjunn, nokkrir sátu hjá og 2 eða 3 voru andvígir.Flokkurinn þinn, Siggi minn, er blóðugur upp að öxlum í umhverfismálum.
 
,,[VG] er trúr stefnu sinni og er ekki með nein undanbrögð." Þetta á nú kannski við í landsmálapólitíkinni en ekki í Árborg. Það hljótum við að vera sammála um.
 
Já, það er rétt. Enda virðist Jón Hjartarson ekki vera í neinum tengslum við VG. Einn í heiminum og öllum óskiljanlegur. Hver veit nema það eigi ærlega eftir að hitna undir honum fyrr en varir.
 
Jæja þá. Ég hef þá lesið þetta eitthvað lauslega.
Nú er hins vegar spennandi að sjá hvað gerist í baktjaldamakkinu öllu saman eftir kosningar. Sjálfur vonast ég eftir SVB-stjórn. Kominn tími á vinstri sveiflu í þessu landi. Síðasta vinstri stjórn lauk störfum vorið sem við Sölvi lukum barnaskóla. Það er allt of langt síðan!
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online