Wednesday, May 30, 2007

 

Dostojevskí.

Mér hefur stundum fundist sem ég væri staddur í miðju leikriti eftir þetta rússneska skáld. Flestar persónurnar eru í sínum hugarheimi og víðs fjarri raunveruleikanum. Einfaldlega snarbilaðar. Þessi tilfinning kom yfir mig á fundi í gærkvöldi. Sjaldan hef ég upplifað álíka fáránleika. Ég ætla ekki að sinni að tíunda þessa upplifun nákvæmlega. Geri það ef til vill síðar. Kannski sannaðist fyrir mér gamla máltækið að svo lengi læra menn sem þeir lifa. Nema náttúrlega þeir sem aldrei læra neitt. Það voru þó ekki allir jafn geggjaðir á fundinum. Mér fannst nokkrir upplifa veru sína þarna á svipaðan hátt og ég sjálfur. Einn hafði t.d. orð á því að völd spilla sumu fólki. Allt of mörgu reyndar. Ég skora hér með á Jón Hjartarson bæjarfulltrúa VG í Árborg að segja af sér strax. Og þó fyrr hefði verið.

Hitinn komst í nákvæmlega 17° hér í gær. Yndislega fallegur og góður dagur. Nóg að gera á vinnustað og undirritaður ákaflega sáttur að loknu dagsverki. Tilhlökkunarefni að hitta skáldið sem nú er á heimleið ásamt heitkonu sinni. Fjallaþráin eykst um allan helming þegar veðrið breytist svona til batnaðar. Á eftir að kanna ástand vega inní Laugar. Margar góðar minningar af þessum slóðum og allt of langt síðan þær hafa verið kannaðar aftur. Níundi eða tíundi júní væru góðir til slíkrar farar. Tæpar 4 vikur í fyrsta laxveiðidag minn í Ölfusá. Einn af indælustu mánuðum ársins að byrja á morgun. Mánuðurinn þar sem birtan vinnur fullnaðarsigur á myrkrinu. Þegar ég kom heim út næturgöngunni var mér fagnað að venju. Og það var bón í litlum augum. Án þess að nokkuð væri sagt. Ég vissi strax hvað til míns friðar heyrði. Teygði mig í rauðan poka í frystihólfinu og hitaði upp hluta af innihaldinu í örbylgjunni. Þetta tók nú ekki langan tíma en sá sem beið var óþolinmóður. Nokkur mjá meðan horft var á skálina snúast í ofninum. Síðan meira mjá og mal að auki. Það vantaði bara að sagt væri: Þú ert andskoti góður kall fóstri. Það er sem sagt allt óbreytt á milli okkar Kimi. Vináttan fölskvalaus sífellt til staðar. Við sendum ykkur öllum bestu morgunkveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online