Monday, May 21, 2007

 

Grámi.

Hálfgrámóskulegur mánudagur. Frostið 7 stig á Þingvöllum í fyrrinótt. Ingólfsjall hvítt niður undir rætur. Lauk nokkrum verkum hér heima um helgina og allt á að verða klárt og kvitt fyrir mánaðamótin. Einn veðurspámaðurinn á moggablogginu spáir rigningarsumrinu mikla, 2007. Fari hann í rass og rófu með spár sínar. Ég spái allavega góðu veðri á veiðidögum í byggð og til fjalla. En fiðringinn vantar meðan þessi kuldaskítur varir. Líklega er bara betra að fá aðeins harðari vetur gegn blíðara sumri.
Ekki er ný ríkisstjórn orðin að veruleika enn. Af fréttum skilst mér að nú eigi að fara að skipta ráðuneytunum milli flokkanna. Og menn velta nú fyrir sér nafni á þessa stjórn. Er nokkur þörf á því. Véfréttin opinberaði enn hugmyndaauðgi sína með því að kalla hana Baugsstjórn. Hvernig væri nú að þessi formaður segði af sér og léti okkur í friði? Auðveldast væri reyndar að leggja flokkinn niður. Þ.e.a.s. það litla sem eftir er af honum. Það er engin þörf fyrir flokkinn lengur. Gjörspilltur og hugsjónalaus. Svo tala foringjarnir um trúnaðarbrest og æsa sig upp í fjölmiðlum. Hvernig væri að líta í eigin barm og skammast sín? Þó ég kvíði verkum tilvonandi stjórnar er það mikið fagnaðarefni að losna við framsóknarflokkinn úr landsstjórninni. Og nú hefur einnig verið tryggt að Árni Johnsen verður gerður áhrifalaus með öllu á þingi. Eins og hann verðskuldar. Því miður fyrir okkur umhverfissinna urðu úrslit kosninganna ekki hagstæðari en raun bar vitni. VG jók þó fylgi sitt um nærri 60%. Það hefði nú einhverntíma þótt nokkuð gott.Við munum að sjálfsögðu halda baráttunni áfram. Baráttunni gegn umhverfisafglöpunum. Og ekki mun veita af ef væntanleg stjórn verður að veruleika. Stóriðjusinnarnir í SF eru allt of margir. Þeir munu verða glaðir en margir sem ljáðu SF lið munu verða fyrir vonbrigðum. Við bíðum eftir plagginu. Það verður væntanlega opinbert bráðlega.

Við Kimi vorum óguðlega snemma á fótum. Bættum það svo upp með værum fegurðarblundi undir morgunsárið. Þegar ég vaknaði aftur svaf dýrið endilangt með alla skanka teygða. Líklega svona um 1 metri á lengd. Hann tekur nú við húsvarðarhlutverkinu meðan ég vinn fyrir mat okkar. Sendum öllum okkar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Von þín um afsögn Jóns virðist vera að rætast skv. fréttum dagsins.
Annars alltaf gaman að lesa smá veðurblogg, skelfilegt annars að fá ,,páskahret" svona næstum því í júní.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online