Thursday, May 24, 2007

 

Asnaeyru.

Það er með ólíkindum hvernig sumir geta látið teyma sig á eyrunum. Í dag tekur ný ríkisstjórn SF og íhaldsins við völdum hér. Og það er sorglegt að áður en þetta gerist er SF farin að svíkja kosningaloforðin. Við verðum áfram á morðlistanum. Sameiginleg yfirlýsing ISG og Geirs um sút yfir því sem nú er að gerast skiptir engu. Þetta lá svo sem í augum uppi fyrir vitiborðið fólk. Morðlistinn og mennirnir sem komu okkur á hann eru nú tabú hjá SF, enda meinti hún ekkert með þessu. Fagra Ísland er líka fokið út í veður og vind. Helguvík og Húsavík.Sama álsálin í SF og íhaldinu. Það var líka vitað. Umhverfisvinirnir sem kusu SF sitja nú með sárt ennið. Þeir geta þó einungis kennt sjálfum sér um. Allt of eyrnastórir á kjördag. Það var nú svona nokkurnveginn öruggt fyrir kosningar að SF og VG myndu ekki ná meirihluta á þingi. Hrun framsóknarflokksins var fyrirséð. Hann var bara einfaldlega úr leik að kosningum loknum. Svo grípur SF töfrasprotann og segir að Steingrímur hafi komið í veg fyrir vinstri stjórn með því að vera vondur við framsókn. Þetta er auðvitað svo fjarri öllu velsæmi í pólitík að ekki nokkru tali tekur.
Hitt er vitað að hluti af VG var tilbúinn til að fara í stjórn með íhaldinu. En bara á öðrum forsendum en SF. Allir áframhaldandi stóriðjudraumar hefðu verið frystir. Og menn hefðu látið reyna á morðlistann. VG hefði ekki látið nægja að fella nokkur kródódílatár yfir ástandinu þar núna. Það er mér fullkunnugt um frá forustu flokksins. Sem betur fer eru ekki allir tilbúnir að selja hugsjónir sínar og sannfæringu fyrir völd. Og það er miklu fleira slæmt við þessa nýju ríkisstjórn. Örlög Íbúðalánasjóðs virðast ráðin eftir að SF afhenti hann Árna Matt. Lyklarnir að heilbrigðisráðuneytinu komnir í hendur eins helsta frjálshyggjupostula íhaldsins. Þess verður ekki langt að bíða að afleiðingarnar verði almenningi ljósar. Hafi menn haldið að stefnuyfirlýsingin frá í gær boðaði betri tíð í margvíslegum baráttumálum vinstra fólks voru þeir á villigötum. Þetta verður allt komið í ljós þegar sumarið er liðið.

Enn er kalt þó veðrið sé fallegt. Kveðjur frá okkur Kimi húsverði, ykkar Hösmagi.

Comments:
Heita þetta nú ekki bara málamiðlanir? Þær eru nauðsynlegar í stjórnmálum ef maður ætlar einhvern tíma að komast í ríkisstjórn. Framsóknarmenn og Vinstri grænir mættu læra af því eftir að hafa eyðilagt möguleika á vinstri stjórn í kjölfar kosningar með barnalegum ásökunum á víxl.

Eins veist þú það, nafni, af reynslunni úr eigin bæ að VG eru ekkert skárri en aðrir flokkar þegar kemur að því að segja eitt en boða svo annað eftir kosningar. Af hverju var Steingrímur J. til dæmis allt í einu til í að gefa afslátt af Helguvík í sjónvarpsviðtali á mánudaginn var til þess eins, að því er virtist, til biðla til Sjálfstæðisflokksins?
 
Ég man nú ekki betur en þú hafir lýst því yfir að þú myndir ekki styðja stjórn sem ekki tæki okkur af þessum illræmda lista.Og þú veist þaðeins vel og ég að enginn, nákvæmlega enginn, möguleiki var á vinstri stjórn með þessum úrslitum.
Og mér finnst nú ekkert barnalegt við að segja sannleikann um framsóknarflokkinn.
Það er einkennilegt fólk í öllum flokkum. Bæjarfulltrúi VG hér í Árborg er einn þeirra.Það er félagsfundur í VG hér á miðvikudaginn. Sannarlega vildi ég ekki vera í sporum þessa bæjarfulltúa á þeim fundi.Hann á ekki von á góðu frá mér.Hann er ekki að framfylgja stefnu vinstri grænna hér og framkoma hans óskiljanleg nær öllum í félagi VG hér. Væri sæmst að segja af sér strax.
Það kann vel að vera að afsláttur SF á boðaðri stefnu sé málamiðlanir. Hægri öflin í SF eru of sterk.Og það vita það allir að ef SF hefði ekki komist í stjórn nú voru dagar ISG í pólitíkinni taldir.Þess vegna gat Geir hnoðað deig sitt að vild sinni. Bestu kveðjur til Köben. Hösmagi.
 
Af hverju væru dagar Ingibjargar taldir? Hvaðan kemur þessi söngur sem margir vilja syngja? Eru dagar Steingríms taldir? Ég vona bara ekki. Alveg eins og það hefði verið mjög slæmt að missa Ingibjörgu úr pólitíkinni, sem ég efast reyndar mjög um að hefði gerst þótt hún hefði ekki farið í stjórn. Svo veit ég ekki af hverju möguleikinn á vinstri stjórn á ekki að hafa verið fyrir hendi; hann var vitaskuld fyrir hendi í þingmannafjölda talið. Eru menn kannski að tala um hreinan vinstri meirihluta? Ég held að slíkt hafi aldrei gerst í Íslandssögunni, að ég best veit. Þannig að eftir stendur að þeir sem tala um að vinstri stjórn hafi verið ógjörningur segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið skipaður í stjórn fyrirfram, sama hvað gerðist, og valið stæði þá aðeins á milli Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Þetta finnst mér nú tákngera margt sem er að vinstri pólitíkinni heima, enn meiri innbyrðis rígur heldur en samstaða gegn hægri öflunum. Hallmælgi í garð Ingibjargar hefur mér einatt þótt kjaftskrókur á þeim legna hæng. Samfylkingarfólk sem ekki vildi stjórn með Framsókn hefur nú fengið það sem það vildi helst. Vinstri grænir virðast hafa misst af því sama. Er það ekki kjarni málsins? Þeir sem ei sænga með íhaldinu gráta það?

Hvað um það. Löng færsla verður ekki lengri. Vorveður í Skotlandi, bjart og 16-18 stiga hita. Indælt. Ísland bíður svo í næstu viku. Kær kveðja, Sölvi
 
Nafni minn og sonur eru viðkæmir fyrir gagnrýni á ISG.Hún má bara ekki vera yfir gagnrýni hafinn.Munurinn á framhaldslífi ISG og Steingríms í pólitíkinni utan stjórnar er sá að flokkur Steingríms jók fylgi sitt um 60% og vann 4 þingmenn á meðan flokkur Ingibjargar tapaði u.þ.b. 13% af sínu fylgi og missti 2 þingmenn og átti ekki innistæðu fyrir meiru en 17 þingmönnum. Og þegar við tölum um vinstri stjórn er okkur gjarnt á að líta til framsóknar eins og hún var áður en hún hóf eyðimerkurgönguna með íhaldinu. Nú er allt vinstra fylgi hennar horfið og stefnan breytt. Kannski verður breyting á því aftur og þá kemur möguleiki á samstarfi við hana upp á borðið á ný. Og ég græt sannarlega ekki að VG átti ekki kost á samstarfi við íhaldið. Ástæðan er augljós. Geir vissi að það var auðvelt að kaupa SF. VG hefði staðið fast við stóriðjustopp í bili og hefði krafist þess að við færum af lista hinn morðóðu þjóða. Og kanarnir eru nú að magna aðgerðirnar í Írak um allan helming sbr. fjárframlögin sem bandaríska þingið var að afgreiða í gær. Og Ingibjörg og Geir harma.Þau ættu að skammast til að taka okkur af listanum í stað þess að segja að þessi aumingjalega yfirlýsing þeirra um sút stjórnarinnar verði þýdd á önnur tungumál. Nóg komið að sinni. Ég hlýt að halda áfram gagnrýni minni á ISG eins og aðra meðan ég tel mig geta það á málefnalegan hátt með því að benda á staðreyndir. Á sama hátt gagnrýni ég það sem mér sýnist hjá VG. Við ræðum þetta síðar í bróðerni, drengir góðir. Kveðjur úr norðanbálinu, Hösi.
 
Já, kannski sagðist ég ekki myndu styðja slíka stjórn. Ég segi svo margt. En ég styð hana nú samt til góðra verka, lýst satt að segja alveg ágætlega á hana. Látum nú samt verkin tala og dæmum svo.
Svo held ég að sá dagur muni koma hjá VG að upp muni rísa öfl sem vilja frekari sáttaleiðir því að annars dæmir VG sig til eilífrar stjórnarandstöðu. Með hverjum ætlar VG að vinna ef það neitar bæði samstarfi við Framsókn og Sjálfstæðisflokkinn? VG hefði ekkert gengið betur að koma Íraks-ákvæðinu inn í stjórnarsáttmála en Sf og það vitum við öll jafnvel. Hefði VG látið steita á Íraksákvæðinu? Það efast ég stórlega um. VG var alla vega til í afslátt á stóriðjusviðinu (sbr. Helguvík hjá Steingrími).

Annars er til lítils að þræta þetta. Vonum bara að bæði stjórn og stjórnarandstaða standi sig í stykkinu á komandi kjörtímabili.

Bestu kveðjur úr rakanum í Kaupmannahöfn.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online