Monday, May 21, 2007

 

Köld birta.

Nú er sól komin hátt á loft. Blankalogn en kuldinn flæðir inn um ljórann hans Kimi. Og langtímaspáin á svipuðum nótum. Ég ætla að vona að skáldið mitt og heitkona hans komi með suðræna hlýju með sér um mánaðamótin. Mér kæmi ekki á óvart að Frostastaðavatn væri ísilagt núna. Kannski förum við bara með nafar með okkur og leggjumst í dorgveiði. Það er allavega tilhlökkunarefni að komast í Landmannalaugar. Þaðan er stutt í Kirkjufellsvatn , þar sem skáldið veiddi fyrsta fisk sinn á stöng og ég hef sagt frá áður. Lítill strákur varð ákaflega sár föður sínum fyrir að sleppa fiskinum í vatnið aftur. Tók þó brátt gleði sína aftur og sættist við föðurinn þegar hann hafði fengið nokkra fiska. Ég á góðar minningar frá þessum slóðum þó langt sé um liðið. M.a. annars var mjög skemmtilegt þegar brennivínsflöskuna rak á land við lappirnar á okkur þar sem við sváfum í svefnpokum milli steina í fjöruborði Kirkjufellsvatns. Og innihaldið rann ljúflega niður um kverkarnar. Það voru Skaftfellingar að veiðum hinumegin við vatnið. Þeir höfðu misst flöskuna fyrir borð úr bát sínum og það var svona rétt mátulegt borð á henni. Þannig maraði hún í rólegheitunum til okkar Ingvars skókaupmanns og Árna Erlingssonar, Laugarbakkajarls. Við hittum svo þessa ágætu Skaftfellinga þegar leið á daginn og þeir urðu glaðir yfir að brennivínið hafði ekki farið til einskis. Rekinn hafði gagnast góðum mönnum. Það væri skemmtilegt að reyna fyrir sér aftur í þessu fallega vatni. Það liggur á mörkum Rangarvalla- og Skaftafellssýslu. Báðar sýslurnar telja sig eiga vatnið og ég held að ekki sé enn búið að skera úr í þeirri deilu.

Allt við það sama í pólitíkinni. Og Véfréttin virðist enn eygja von. Hún ætlar ekki að segja af sér fyrr en endanlega er búið að mynda nýja álstjórn. Formlega er hún enn ráðherra. Kannski gæti Geir orðið leiður á kossaflensinu. Eða Solla. Véfréttin er enn fús til starfa fyrir þjóðina.
Þjóðhyggjan enn í fyrirrúmi. Hagsæld og hagsbætur. Sumu fólki virðist alls varnað. Andskotans della er þetta. Enn og aftur sannast það sem ég hef sagt hér oft áður. Það er ekki mark takandi á einu einasta orði forystumanna framsóknarflokksins. Þeir eru öllu trausti rúnir og ættu að snúa sér að öðru en stjórnmálum. Bestu kveðjur frá okkur rauðliðum, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online