Monday, May 14, 2007

 

Afleiðingar.

Andvaraleysi hefur stundum vondar afleiðingar. Hættan virðist vera að aukast á að stjórnin sitji áfram. Yfirlýsingar Guðna, Valgerðar og Véfréttarinnar eru algjörlega innihaldslausar. Fíknin í valdastólana hefur ekkert minnkað. Og það er slæmt að Íslandshreyfingin bjargaði stjórninni. Eins og áður finnst mér vænt um Ómar Ragnarsson og sannarlega hefði ég kosið hann sem bandamann á þingi í baráttunni gegn álstefnunni. Og það er rétt hjá honum að þröskuldurinn fyrir að fá þingmann er of hár. En Ómar vissi þetta fyrir og ekki tjáir að tala um ólýðræðislegar reglur. Þeim verður vonandi breytt. Stjórnin lafir á einum þingmanni. Ekki vildi ég vera ráðherra í stjórn sem ætti allt sitt undir dæmdum þjófi. Vilduð þið það? Svo ætlar Véfréttin mikla að kalla til slatta af varamönnum inn á þing svo hinir kjörnu geti verið ráðherrar í rólegheitunum. Og við borgum brúsann. Þá getur framkvæmdastjóri þingflokks framsóknarmanna spókað sig sem þingmaður og Bjarni Harðar sprett úr spori á nýjum glæsivagni ráðherra. Vanur að hafa hestöflin í klofinu eins og Siv litla.Ráðamenn framsóknar átta sig ekki enn á ástæðunum fyrir fylgishruni flokksins. Botna ekkert í að fá ekkert út úr öllum góðverkunum meðan Sjálfstæðisflokkurinn fitnar eins og púkinn á fjósbitanum. Og hversvegna skyldi þetta vera svona? Það er vegna þess að þeir vita ekki hvað spilling er. Hún virðist vera orðin inngróin í flokkinn. Allt leyfilegt og ofur eðlilegt ef framsóknarmaður á í hlut. Formaðurinn náði ekki kjöri. Og ráðherrann í hinu Reykjavíkurkjördæminu kolféll í kosningunum. Hvar á byggðu bóli annarsstaðar en hér myndi slíku fólki detta í hug að sitja áfram að völdum? Auðvitað hvergi nokkursstaðar. Ég sagði það hér á blogginu fyrir kosningar að næðu ríkisstjórnarflokkarnir að halda 32 þingmönnum myndu þeir halda áfram. Þetta virðist orðin staðreynd. Og það staðfestir að ekki er orð að marka af því sem forustumenn framsóknarflokksins segja. Við getum átt von álverum í Helguvík, Húsavík, Þorlákshöfn, Skagafirði og jafnvel víðar. Til " hagsbóta" fyrir þjóðina eins og páfagaukurinn þrástagast á. Verðbólgan heldur áfram. Biðlistarnir styttast ekki. Fleiri einkavinir framsóknar munu geta velt sér upp úr illa fengnum auði. Keypt fleiri jarðir og fleiri hross. Líklega erum við enn stödd í leikriti eftir Dostojevskí. Því miður. Jarðarför öldungsins verður frestað um sinn þó búið sé að taka gröfina. Vilji þjóðarinnar segja þeir. En ef grannt er skoðað hafnaði 51,7% þjóðarinnar þessu fólki. Kusu aðra flokka. Það er óumdeilanleg staðreynd.

Þó dimm ský grúfi nú yfir í pólitíkinni skín sólin glatt. Andvari og nokkrar + gráður. Aukafrídagur í vikunni. Hún verður fljót að líða því nóg er að gera. Landið grænnkar þokkalega þó hitastigið sé fremur lágt. Þó illa horfi í landsstjórninni skulum við verja landið með kjafti og klóm. Það verður fróðlegt að fylgjast með Draugabjarna þegar Landsvirkjun byrjar að drekkja Skeiðunum. Kannski fáum við annan fund við Urriðafoss. Ég og ástfólgna dýrið mitt sendum ykkur bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online