Thursday, May 03, 2007

 

Skynsemin.

Þeir Bjarni og Guðni segja nú báðir að kjósendur eigi að láta skynsemina ráða og kjósa framsókn. Þeir hafa greinilega tileinkað sér öfugmælasmíði Véfréttarinnar. Páfagauksins, sem étur orðrétt upp speki fjármálaráðherrans. Og svo kvarta sauðir framsóknar yfir að menn fari að hlægja. En auðvitað eru þessir frambjóðendur framsóknar fyrst og fremst hlægilegir. Og um leið er málflutningur þeirra umkvunarverður. Þeir klifa á sömu lyginni daginn út og daginn inn. Hæla sér af því hvað framsóknarflokkurinn hafi gert fyrir þjóðina undanfarin 12 ár. Berja hausnum við steininn og grátbiðja kjósendur um stuðning. Það þarf þó ekki að nefna nema nafn Finns Ingólfssonar til að sjá hvað hæft er í fullyrðingum þeirra um góðverk flokksins á þjóðinni. Þeir hafa losað flokkinn við allt sem þjóð og landi gæti komið til góða. Eftir stendur spillingin ein. Bitlingar og kjötbitar. Og bara bestu bitarnir úr pottinum. Ekkert er okkur nauðsynlegra nú en að losa okkur við þennan flokk. Helst í eitt skipti fyrir öll. Ég tek ekki mark á einu einasta orði þessara manna. Það er löngu vitað að Sjálfstæðisflokkurinn vill selja Landsvirkjun. Einkavæða fyrirtækið. Afhenda það réttum aðilum. Spor framsóknar í einkavinavæðingunni eru mjög skýr. Hvað varð um Búnaðarbankann? Landsbankann og Símann? Skynsemi Bjarna, Guðna og allra hinna felst í því að halda að við séum öll eintóm fífl. Þau eru að vísu allt of mörg hér í kjördæminu. Því miður. Trúðar og dæmdir stórþjófar eiga trúnað nokkuð margra hér. En ekki minn og vonandi á ég mörg skoðanasystkyni hér. Það er mjög raunhæfur möguleiki á að VG geti náð inn 2 mönnum hér. Það hefst ef við notum raunverulega skynsemi. Ekki skynsemi framsóknar. Rísum upp og kyssum ekki á vöndinn.

Yndislegt vorveður. Ég ætlaði austur í Landbrot í dag. Því miður var verkið blásið af í gær. Þessi leiðangur hefði nú aldeilis ekki verið amalegur á svona fallegum degi. Nokkuð líflegt á vinnustað þessa dagana og þá er nú tilveran miklu betri. Helgarfrí kl. 5 í dag og það er notaleg tilhugsun.Kannski þarf ég að sparka aðeins í sjálfan mig til að ljúka ýmsum verkum hér heimafyrir. Taka sprett og klára þau. Nýi Canon prentarinn svínvirkar. Þurfti smáaðstoð frá góðum manni í næstu blokk. Tækniverkið er ekki mín sterkasta hlið. Blátt áfram ótrúlegur auli í svoleiðis gangverki. Við Kimi sendum kveðjur. Svíþjóð, Spánn, Danmörk. Og hvar sem þið eruð nú öll, krúttin mín. Ykkar Hösmagi, án dómgreindar framsóknarmanna.

Comments:
Thakka kvedjur. Lofa ad kjósa aldrei Framsókn, sbs
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online