Sunday, March 04, 2007

 

Pínulítil þjóðhyggja í viðbót.

Það var viðtal við öfugmælasmiðinn að loknu flokksþingi. Hann var við sama heygarðinn. Ábúðarmikill, með alvarleg augu og með allt á hreinu. Allir sem fylgdust með þessari samkomu sáu það á föstudaginn að Siv heilbrigða hótaði stjórnarslitum út af auðlindaákvæðinu í stjórnarskrá. En Véfréttin kannaðist ekki við það. Engar hótanir um stjórnarslit. Siv var bara að "skerpa á áherslum" Þessi sálufélagi draugsins talar ævinlega út og suður. Alveg gjörsamlega út í hött. Hann er örugglega með dæmigerðan framsóknarheila. Við skulum fylgjast með næstu skrefunum varðandi auðlindaákvæðið. Össur Skarphéðinssson er í stjórnarskrárnefndinni. Hann sagði að framsóknarmenn hafi ekki lyft litla fingri til að fá ákvæðið inn. Og framsóknarmenn hafa ekki mótmælt þessu. Það er nú ekki sérlega trúverðugt að krefjast stjórnarslita á þessum forsendum. Það er verið að þyrla upp rykskýjum rétt fyrir kosningar í von um að nægilega margir láti villa sér sýn og þannig komist þau Nonni og Siv inná þing. Ástandið í öldrunarmálum kemur heilbrigðisráðherranum lítið við. Það er sveiftarfélögunum að kenna. Hvernig væri nú að stokka aðeins upp þar. Ríkið tekur hverja einustu krónu af fjármagnstekjuskattinum til sín. Sveitarfélögin fá ekkert. Eftir aðgerðir stjórnarinnar síðustu ár eru æ fleiri sem engan tekjuskatt greiða. Einungis 10% fjármagnstekjuskatt sem allur rennur í ríkissjóð. Ráðherrarnir eru stikkfrí í deilunni um kjör kennara. Samt halda þeir sveitarfélögunum í fjársvelti með því að taka miklu stærri bita af skattatertunni. Það urðu til ýmis skrautblóm á þessari neyðarráðstefnu framsóknarmanna. Þar var til dæmis ályktað að við skyldum nýta auðlindir af varúð og virðingu. Á sama tíma vill þessi stóriðjuflokkur fá svona 4-5 ný eiturspúandi álver. Eyðileggja náttúruperlur og heimalönd bænda hér í nágrenninu. Þeir segjast vilja styrkja þá sem minna mega sín. Á sama tíma og margir þessara smælingja eru á hungurmörkunum vegna stefnu framsóknar með dyggum stuðningi íhaldsins.Og álfrúin sjálf, Valgerður, segir að aðalatriði sé að gera það sem best er fyrir Ísland. Það velkist ekkert fyrir mér heldur. Losum okkur við framsókn í eitt skipti fyrir öll. Það væri sannarlega gott fyrir Ísland.Látum þennan ferðaglaða ráðherra leika sér á eigin kostnað í framtíðinni. Hún var í grænu í gær. Og Siv. Véfréttin og félagsmálaráðherra með grænt bindi. Ránfugl íhaldsins er líka orðinn grænn. En það er hætt við að liturinn fölni fljótt þegar búið verður að kjósa. Græni liturinn á mínum flokki er hinsvegar ekta. Líklega ættum við að taka Véfréttina alvarlega svona einu sinni. Við skulum varast ódýrar eftirlíkingar.

Það eru nokkur snjókorn að mylgrast niður úr loftinu. Nánast logn og ástæðulaust að að kvarta nokkuð. Raikonen sat fyrir mér við bílskúrshornið í morgun. Galsafullur að venju. Mér varð hugsað til þess á leið upp stigann hve gaman væri að vera jafnléttur á fæti og hann. Hvílíkt fjaðurmagn. En ég þarf nú alls ekki að bera mig neitt illa. Góð heilsa þó árin haldi áfram að telja.Enginn er eldri en hann vill vera meðan heilsan er góð og jafnvægi hugans hefur undirtökin.
Með kveðju frá okkur á sunnudagsmorgni, ykkar Hösmagi.

Comments:
Bendi þér, að gamni, á uppfærslu nýjustu leiksýningarinnar á fjölunum þetta vorið:
http://vettvangur.net/?p=158
 
Til hamingju með daginn minn kæri. Ég hef lengst af degi staðið í þeirri meiningu að nú væri 4. mars, ekki fimmti, sem er ómögulegt að halda þegar faðir manns á afmæli. Vona að þið Raikonen hafið það gott í kotinu og þessi merkisdagur sé þér allur hinn ánægjulegasti. Bestu kveðjur á Selfoss, Sölvi
 
Takk fyrir góðar óskir,Sölvi minn. Ég hef nú bara étið tros og flatkökur. En sá rauðböndótti fékk rækjur í tilefni dagsins. Sefur nú á bakinu í sófanum og nálgast meterinn á lengd. Bestu kveðjur til ykkar Helgu.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online