Friday, March 30, 2007

 

Saumspretta.

Ég hringdi í Hörð yfirbifvélavirkja í gær. Þennan Húdíni, sem opnaði Grána í hittifyrra. Komið að skoðun á Lancernum og þá er best að byrja á Herði. Hann les stundum bloggið mitt og spurði hvort ég væri búinn að finna kveikjarann. Nei, sagði ég. Hann var þess fullviss að eldfærið væri í bílnum. Ég tók hús á Herði eftir kvöldmatinn. Hann svaf í makindum yfir fréttum sjónvarpsins. Svo hófst leitin. Það er sjaldan sem Hörður verður að viðurkenna ósigur sinn. Hann varð að trúa því að geimveran hefði kveikjarann. Spurði þó að lokum hvort áhaldið væri örugglega ekki í úlpunni. Nei, sagði ég. Ég hélt heimleiðis og hugsaði um reykjandi geimverur. Dundaði heillengi við skattframtal Hösmaga ehf. Síðan gengum við Raikonen til náða. Í morgunsárið leituðu orð Húdínis á mig. Best að gerast fjölþreifinn við úlpuna. Og viti menn. Haldiði ekki að eldfærið hafi verið inní fóðrinu neðst hægra megin. Náttúrulögmálin, eðlis og efnafræðin höfðu betur gegn hinu yfirnáttúrulega. Rétt neðan við vasann var saumspretta. Þangað hafði eldfærið skriðið. Ég varð eiginlega bæði glaður og hryggur í senn. Glaður yfir stálinu mínu, sem notalegt er að velta í hönd sinni. Auk notagildisins. Og hryggur yfir að ímyndunarafl mitt hafði beði hnekki. Líkasttil engin geimvera verið með mér. Og hafi hún verið með mér þá líklega hætt að reykja. Svona geta nú skemmtilegar ímyndanir runnið gjörsamlega út í sandinn. En nú hef ég stálið stinnt í hendi mér.Endurfundurinn varð fyrr en mig grunaði.

Þrítugasti dagur mars runninn upp. Tvöfalt afmæli, Helga og Raikonen. Ég ætla að biðja Sölva minn að knúsa haldreipið sitt frá mér.Mér finnst vænt um þetta snæri, og tel skáldið fullsæmt af samneyti við það. Stoltur af þeim báðum. Sjálfur er ég búinn að knúsa Kimi. Þennan góða og ljúfa vin minn úr dýraríkinu. Veðrið dásamlegt og við báðir búnir að njóta þess. Rækjurnar voru þíddar á meðan. Og dýrið kumraði af gleði þegar skálin var sett fyrir það. Sannarlega indæll morgun. Helgin að renna í hlað. Hin næsta byrjar snemma og verður lengri. Þó ég trúi nú svona mátulega fagna ég þessari hátíð. Ætla að njóta hennar og kannski geri ég eitthvað sniðugt. Herconinn er við öllu búinn og græna þruman einnig. Með blíðum kveðjum frá mér og hinum 2ja ára Kimi, ykkar Hösmagi..

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online