Sunday, March 25, 2007

 

Trúarsetningar.

Það er mikið bloggað á Moggablogginu þessa dagana. Sumum er nú fyrirmunað að skilja húmor. Og aðrir eru fastir í trúarkreddum sínum. Verstir eru þeir sem eru fastir í biblíunni. Þeirra rök eru lögmálið sjálft. Við hin eigum auðvitað að hlýða. Nú andskotast einn út í stofnfrumulögin nýju. Hefur allt á hornum sér vegna Gay Pride og Villa borgarstjóra, sem kyssti á hönd einnar dragdrottningarinnar. Það er nú ekki aldeilis amalegt að hafa svona siðgæðisverði. Sem segja okkur hvernig hlutirnir eiga að vera. Ég hef haldið því fram hér áður að ekkert hafi gert mannkindinni neitt verra en trúarbrögðin. Ofstækismaðurinn sem hamast á Moggablogginu mun vera guðfræðingur. Ég hef reyndar aldrei skilið þessa menntun. Það er líka reginmunur á guðfræðinni og öðrum greinum. Hún er á sama stiginu og fyrir 2000 árum. Það er líklega vegna þess að að það er ekki hægt að þróa hin algildu sannindi. Þar er stærsti munurinn á henni og t.d. raungreinunum. Gæfumunurinn. Kristnir guðfræðingar eiga ekki að láta svona. Tileinka sér frekar umburðarlyndið sem Kristur kenndi forðum.

Hin nýja íslandsfylking Ómars Ragnarssonar er að komast á koppinn. Það er auðvitað fagnaðarefni ef eitthvað af hægra liðinu er að verða grænt. Og mesti ávinningurinn yrði ef þetta framboð dygði til þess að koma frjálslynda flokknum fyrir ætternisstapa. Ég treysti Ómari vel til góðra verka. En það eru alltaf gikkir í hverri veiðistöð. Með honum eru nokkrir pólitískir lúserar sem vonast til að komast á þing með þessum hætti. Vinir einkavæðingarinnar t.d. Það verður fróðlegt að sjá næstu könnun Gallup. Það sem mestu máli skiptir er að sjálfsögðu að fella ríkisstjórnina. Hverfa af braut herferðarinnar gegn náttúrinni, auðmannadekrinu og misskiptingunni á lífsgæðunum. Og fyrir hina raungrænu og þá, sem hafa fengið nóg af þeim sem hafa verið að sölsa eigur þjóðarinnar undir sig og vini sína, verður valið auðvelt í kosningunum.

Hösmagi er nokkuð góður með sig eftir þessa nýliðnu helgi. Kom heilmiklu í verk og hélt áfram að elska köttinn sinn. Hið almenna brauðstrit að hefjast aftur og veðrið indælt. Svo er að styttast í páska með kærkomnu fríi. Kimi nýkominn inn og þrífur tær sínar og skott. Við sendum ykkur bestu kveðjur úr blíðunni, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online