Monday, March 05, 2007

 

Aulafyndni.

Bara örstutt um Véfréttina. Í sjónvarpinu í gærkvöldi eins og vant er. Fréttamanninum sem talaði við þetta fyrirbæri í stjórnmálunum fannst nú augljóst að einhverskonar ágreiningur væri í ríkisstjórninni vegna auðlindaákvæðisins. Og Véfréttin sagði að það væri eðlilegt af því fréttamaðurinn stæði á öðrum stað en hún sjálf og hefði því aðra sýn á málið. Er þetta það sem koma skal ef framsóknarflokknum tekst að koma brókunum upp fyrir hné í kosningunum? Ætli skemmtikraftinum Guðna hafi verið skemmt yfir þessum fíflalátum? Ætlar fólk yfirleitt að taka mark á svona mönnum? Við skulum bara vera minnug þess hvernig framsóknarafturhaldið hefur hagað sér undanfarin ár. Rassskellum það ærlega nú þegar kostur er á því.

Ég hef stundum líkt fasteignasölu við stangveiði. Stundum er hann að narta og maður veit ekki hvort hann tekur. Svo kemur fyrir að sá stóri sleppur þegar löndun er alveg að takast. Inn á milli rótar maður honum upp. Ég er búinn að vera með einn nokkuð þokkalegan á síðan fyrir helgi. Þegar ég kem í vinnuna á eftir mun fljótlega koma í ljós hvort mér tekst að ná honum á land. Ég á nú ekkert í firmanu sem ég vinn hjá. En ég hef alltaf haft það að leiðarljósi í starfinu að hagsmunir þess eru mínir um leið. Sálfræði og diplómatía eru afar mikilvæg í þessu starfi. Þú verður að geta lesið viðskiptavininn svolítið. Veiðimaðurinn sem kann að lesa vatn veiðir meira en hinn. Og þú mátt alls ekki fara á taugum. Þegar þér hefur tekist að ná málamiðlun milli seljanda og kaupanda og þeir virðast báðir hálfóhressir með hana er nokkurnveginn víst að þér hefur tekist að ná góðri niðurstöðu. Báðir eru ánægðir undir niðri. Og þú ert enn ánægðari með árangurinn í starfinu. Og ef ég held samlíkingunni áfram þá er þolinmæðin ákaflega mikilvæg á báðum stöðum. Flýttu þér hægt og gefðu þessu þann tíma sem þarf. Ég reikna nú ekki með að ég skipti um starfsvettvang úr þessu. Nú eru bara 4 ár í að undirritaður verði svokallað löggilt gamalmenni. Ég hyggst nú vinna eins lengi og mér verður auðið. A.m.k. meðan einhver vill nýta sér krafta mína. Og mér finnst nú sjálfum að ég sé enn í fínu formi. Ekki farinn að kalka neitt að ráði. Á meðan svo er finnst mér þetta allt vera afar indælt. Að vakna hress og hlakka til dagsins er nú ekki sjálfgefið. Tel mig þekkja það af eigin raun. Þetta verður enn betra þegar við höfum jarðað þessa ríkisstjórn. Cató hinn gamli lauk nú öllum sínum ræðum með því að leggja til að Karþagó yrði lögð í eyði. Ég legg til að framsóknarflokkurinn og umferðarstofa verði lögð niður.
Með hunangskveðjum frá okkur Raikonen, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online