Wednesday, March 14, 2007

 

Í eldhúsinu.

Ég fylgdist með ræðum þingmanna í sjónvarpinu í gærkvöldi. Ég fór að velta því fyrir mér hversvegna sumt fólk getur ekki komið til dyra eins og það er klætt. Hefur sífelld endaskipti á sannleikanum. Kannski er það bara ómeðvitað. Stjórnarliðar máttu ekki vatni halda yfir velsæld landsmanna. Sumra a.m.k. Manna eins og Bjarna Ámannssonar sem nýlega nýtti sér " kauprétt" sinn og hagnaðist um 360 millur á einum sólarhring. Það verður fróðlegt að sjá hver spilar í fimmtugsafmælinu hans.Það tæki verkamanninn á aðra öld að vinna fyrir þessum peningum. Og myndi borga af þeim þrefalt hærri skatt. Þetta er framtíðarsýn þeirra sem nú sitja við stjórnvölinn. Það er ekki undarlegt að þetta fólk óttist vinstri græna. Ungu framsóknarþingmennirnir, Sæunn og litla gamalmennið, höfðu lítið annað til málanna að leggja en að lýsa vánni ,sem fyrir dyrum yrði, ef þessi voðalegi flokkur fær aukin áhrif. Leiðinlegt að Guðjón Ólafur skyldi ekki líka fá að segja nokkur velvalin orð.Og menntamálaráðherrann sagði að loforð stjórnarandstöðunnar væru bara innstæðulausir tékkar.Nýkominn úr háskólanum sem hún færði nokkra milljarða á silfurfati. Milljarða sem næsta ríkisstjórn og þarnæsta eiga að standa við að greiða. Einber sýndarmennska og algjörlega innistæðulaus ávísun. Véfréttin með nákvæmlega sömu ræðuna. Eins og forritað vélmenni. Aldrei meiri þörf fyrir framsóknarmennsku og einmitt nú. Ekki hefur höfuðið lagast eftir að búmerangið þeirra Geirs lenti aftur í hausnum á þeim. Og búmerangið ónýtt eftir. Þetta er einhver misheppnaðasta kosningabrella í allri stjórnmálasögunni hérlendis. Það er að vísu afrek útaf fyrir sig hjá formanni framsóknarflokksins að hafa tekist að plata Geir með sér út í þennan drullupytt. Langflestir sjá í gegnum svona kúnstir. Og þessir meistarar í dullukökubakstri munu uppskera í samræmi við athafnirnar. Þeim mun ekki takast að snúa óhjákvæmilegri þróun við. Örvæntingin knýr menn stundum til örþrifaráða sem verða til þess að þeir fara úr öskunni í eldinn. Við skulum gera öldu vinstri grænna enn öflugri en hún þegar er orðin. Gerum hana að brimi og stórsjó. Þá getum við átt von á fleiru en fréttum af því hver spilar í afmælum hinnar nýju stéttar á næstu árum.

Alhvít jörð á Selfossi í morgun. Dánardagur Júlúsar keisara í dag. Ég ætla á fund í kvöld. Hitta 3 verðandi þingmenn VG. Og það skemmtilegasta við það er að þeir munu verða þingmenn í kjördæmum sem ekki hafa áður státað af röddum VG. Ég vona allavega að þau Alma Lísa og Atli verði bæði þingmenn Suðurkjördæmis í vor. Og Guðfríður Lilja á sannarlega erindi í Kraganum.Það er bara ofureðlilegt að það fari skjálfti um talsmenn ríkisstjórnarflokkanna. Þeir tala um stopp stopp stefnu VG. Það er aldrei þessu vant sannmæli. Við ætlum að stoppa þá af.

Bestu kveðjur úr næturkyrrðinni, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online