Monday, March 26, 2007

 

Kveikjarinn sem kvarf...

eða hvarf öllu heldur. Snemma í gærmorgun var ég staddur í einkabifreið okkar skáldsins, Lanca hins smáa. Og bláa reyndar einnig. Það er liturinn að utanverðu en sálin er rauð og græn.Hann hefur stóra sál eins og allir mínir bílar um dagana. Vindlapakkinn og Zippóinn lágu á mælaborðinu. Ég náði taki á hvorutveggja og hugðist setja þessa nytjahluti mína í vasann. Og vindlarnir rötuðu. Orðnir svo vanir þessu. En einvernveginn komst hinn bensínknúni ekki í vasann. Og það merkilega við þetta er, að það kom mér ekki á óvart. Ég fann kveikjarann skríða burtu úr hönd minni. Hvert hann fór veit ég hinsvegar ekki. Í fyrsta lagi hefði ég heyrt hann detta í gólfið ef það hefði gerst. Enda bar leitin engan árangur. Ég hefði líka fundið hann í sætinu. Hann var ekki í öðrum vösum úlpunnar. Hann er bara kveikjarinn sem kvarf. Ég held að þetta sé verulegt rannsóknarefni. Töframenn kunna svona trikk. En mér hefur aldrei tekist að framkvæma nein trikk. Og var heldur alls ekki að reyna það. Sem mikill raunhyggjumaður er mér þetta hulin ráðgáta. Bókstaflega ofvaxið mínum skilningi á tilverunni og eðli hlutanna. Náttúrulögmálum, eðlis- og efnafræði og allskonar öðrum fræðum. Kannski hefur bara verið ósýnileg geimvera þarna með mér. Sárvantað eld og séð sér leik á borði. Ég þykist viss um að geimverur séu til. Og kannski sumar ósýnilegar. Og Zippóinn er mjög merkilegt fyrirbæri. Með æviábyrgð frá verksmiðjunni. Og gengur fyrir nánast öllu sem flýtur nema vatni, mjólk og kóki. Frostvari t.d. ágætur. Flugvélabensín, tré- og rakspíri virka líka. Steinolía og jafnvel dieselolía. En nú gagnar það mér lítið. Eldfærið horfið út í eterinn. En af fenginni reynslu er ég ekki úrkula vonar. Hef upplifað hvarf nytjahluta í lífi mínu áður. Sem hafa svo skilað sér með óskiljanlegum hætti. Vonandi skilar þessi aliens kveikjaranum aftur. Mér þótti vænt um þennan hlut. Notalegt að hafa volgt stálið í hendi sinni. Ég sakna hans og hlakka til endurfunda þegar og ef þeir verða.Það liggur hér gaskveikjari á borðinu. Ekkert í hann varið. Sálarlaust plastdrasl. Ó hvað það væri indælt að hafa stálið hérna hjá sér. Varla að ég geti á heilum mér tekið yfir þessu óþverralega lymskubragði. Kimi er slakur yfir þessu. Sefur nú á stólnum snjáða sem man fífil sinn fegri. Kimi er hinsvegar smávinurinn ígulfagri. Flaggskip fegurðarinnar hér í Ástjörn. Með dularmögnuðum kveðjum, ykkar Hösmagi.

Comments:
Þetta er augljóslega verksmiðjugalli, þessi dullarfulla sérlund kveikjarans. Þú verður bara að skrifa framleiðandanum og skipa honum að senda þér nýjan grip hið snarasta, vandlega lofsungnum af einhverjum andapresti sem rekur úr honum alla sál. Bestu kveðjur frá París annars, næst verður það frá Indlandi. Leggjum í hann þangað í kvöld. SBS
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online