Wednesday, March 21, 2007

 

Lýðræði hverra?

Í mánaðarlokin kjósa Hafnfirðingar um hvort þeir vilji stækkun Straumsvíkurálversins eða ekki.Þeir skiptast nú í fylkingar og hart er barist. Þeir sem vilja stækkun eiga sér sterkan bandamann. Rannveigu Rist og flest hennar lið með ótakmörkuð fjárráð. Upplýsingafulltrúinn í álverinu upplýsti okkur um það í gær að þeir berðust eins og stjórnmálaflokkur. Hringjandi út og suður til að fá fólk á sitt band. Sól í Straumi og aðrir sem eru mótfallnir stækkun eru ekki í sömu stöðu. Þeir hafa að vísu sannfæringu sína og góðan málstað að vopni. En þeir hafa ekki aðgang að neinum sjóðum eins og hinn erlendi auðhringur sem nú sýnir okkur hvernig lýðræðið virkar. Hér gilda ekki lögin sem stjórnmálaflokkar verða að fara eftir. Einungis peningalýðræði hins erlenda auðhrings. Og íbúar sveitarfélaganna við Þjórsá eru ekki spurðir um neitt. Þar á bara að virkja hvað sem tautar og raular. Svo segir umhverfisráðherrann, Jónína frambærilega, að stjórnarandstaðan sé á móti náttúruvernd. Hafi hótað málþófi um náttúruverndarfrumvarpið. Komið í veg fyrir sættir. Sættir um svona 4-5 álver í viðbót og svo megi hugsa málið. Raunverulegir umhverfissinnar sjá í gegnum svona kúnstir. Forustumenn framsóknar virðast gjörsamlega vera komnir úr sambandi við raunveruleikann. Fylgishrunið blasir reyndar við þeim og því eru öll meðul heimil. Og sumir þeirra hafa mynd af Véfréttinni uppá vegg hjá sér. Svona eins og í gamla daga þegar litlar styttur af Stalín voru til á mörgum heimilum á Íslandi.Nú sitja menn við og reikna og reikna. Eins og málið snúist einungis um hvað margar krónur komi inní kassann hjá krötunum í Hafnarfirði. Á það eitt að ráða? Hvað með okkur sunnlendinga og alla aðra landsmenn? Eiga Hafnfirðingar einir að ákveða hvort Straumsvíkurálverið verður að stærsta álveri í Evrópu? Ég segi nú að þetta sé mál okkar allra.
Það er margt rætt á Moggablogginu þessa dagana. Landsmálin, dægurflugurnar og svo framvegis. Sumir segja að ef Vinstri grænir verði jafnöflugir og kannanir benda til sé voðinn framundan. Kjarnorkuvetur og stóra stopp. Þeir eru brjálæðingar. Og einn ungur laganemi segir að þeir séu glæpamenn. Stóra veislan muni taka enda. Allir niður á vesaldarstigið. Þegar fólk er að míga á sig af hræðslu talar það svona.Öll tiltæk ráð leyfileg. Sérstaklega lygin. Og gamla góða aðferðin að gera fólki upp skoðanir. Mjög vinsæl aðferð. Mesti stóriðjuflokkur íslandssögunnar er framsóknarflokkurinn. Nú er ránfugl íhaldsins líka orðinn grænn. Og lausn Sf. er Fagra Ísland.
Sagan er besti vitnisburðurinn um heilindi. Þar hefur bara einn flokkur hreina samvisku. Straumurinn til vinstri grænna verður ekki stöðvaður. Mikill kosningasigur okkar í vor mun verða þjóðinni til farsældar. Og fyrir mig er það gleðiefni að nú munu Sunnlendingar eignast þingmenn sem við þurfum ekki að fyrirverða okkur fyrir. Smáuppbót fyrir að fá líka dæmdan sakamann sem fulltrúa okkar. Það er að vísu skelfilegt en ég firri mig allri ábyrgð á því.

Orðið albjart og veður milt. Umhleypingar í tíðinni nú í byrjun einmánuðar. Dagurinn orðin lengri en nóttin. Ég mun þræla fyrir kapitalistana í dag og á morgun. Svo ætla ég að þræla alveg voðalega mikið um helgina. Fyrir sjálfan mig.Og líklega er ég nú svolítill kapitalisti inn við beinið.Bestu kveðjur í allar áttir frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online