Friday, March 02, 2007

 

Meira af þjóðhyggju.

Enn hefur Véfréttin hafið upp raust sína. Nú sem formaður á flokksþingi framsóknarflokksins. Samfylkingin og vinstri grænir eru vondir flokkar. Lélegar eftirlíkingar af framsóknarflokknum. Eru jafnvel að teygja sig inná miðjuna þar sem framsóknarflokkurinn hefur einkaleyfi. Og ég sem hélt að það væri svo þjóðlegt að tína fjallagrös. Það er nú eina stefnumál vinstri grænna að mati margra pólitískra andstæðinga þeirra. Og líklega eru nokkrir tínslumenn í samfylkingunni líka. Véfréttin hefur nú ekki útskýrt hvað felst í þjóðhyggjunni sem henni verður svo tíðrætt um. SF og VG lögðu fram þingsályktunartillögu í vikunni um að við strikuðum okkur nú þegar út af lista yfir hinna morðglöðu þjóða. Lítil þjóðhyggja í því og véfréttin sagði tillöguna vera flokkunum til skammar. Hún væri búin að útskýra þetta allt fyrir þjóðinni. Samkvæmt yfirlýsingu frá Hvíta húsinu erum við á þessum lista. Þökk sé Davíð og Halldóri. Draugnum, sem nú á öðru tilverustigi virðist vera sú sól sem nú, eins og áður, lýsir Jóni formanni á þjóðhyggjubrautinni. Þegar draugurinn hafði engan sem hann þurfti að losa sig við úr pólitíkinni hringdi hann í Nonna og spurði hvort hann gæti ekki vermt stól seðlabankastjóra svolitla stund. Jú það vil ég sagði litla gula hænan. Svo þegar draugsi var orðinn leiður á pólitíkinni valdi hann þessa sömu pútu í stól sinn. Allar hennar ræður eru í stíl véfréttar. Stóriðjustefnunni var mokað út af borðinu fyrir mörgum árum. Írak kemur okkur ekkert við. Þjóðhyggjan felst í að gefa útvöldum framsóknarmönnum eigur þjóðarinnar. Erlendum auðhringum rafmagnið. Vera í framsóknarflokknum til þess eins að maka krókinn. Koma sínum mönnum fyrir á réttum stöðum þar sem von er til að eitthvað gott sé á beininu. Þetta eru ær og kýr forustumanna flokksins. Flokksins, sem nánast öllu trausti er rúinn nú og hefur völd og áhrif langtum úr hófi.Mér finnst einhvernveginn það eina sem þjóðlegt er við þetta sé skegg véfréttarinnar. Flestir bændur landsins voru með ámóta skegg á 19. öldinni. Nokkuð þjóðlegt bara. Jón formaður er einhver mesti öfugmælasmiður í allri hinni pólitísku sögu hér. Örvæntingarfullar tilraunir hans við að gera SF og VG ótrúverðugan kost munu renna út um þúfur. Við skulum hafa framsóknarflokkinn í höfuðborginni undir smásjá næstu vikurnar. Það verður allt reynt til að gera véfréttina að þingmanni. Nógir eru aurarnir. Vonandi tekst það samt ekki. Jafnvel Sif er skárri. Hún er líka í vonlítilli stöðu um þingsæti. Sem betur fer. Það hefur komið fram í könnunum að þessi 5-10% sem hyggjast kjósa framsókn hafa aldrei kosið neitt annað og gera það bara af gömlum vana. Svona vélrænt eins og róbótarnir. Þannig vilja líka forystusauðir flokksins hafa það. Fara svo sínu fram að vild eftir kosningar. Látum þetta sorglega nátttröll í íslenskri pólitík bara daga uppi í kosningunum. Dysjum það svo og sjáum til þess að það gangi ekki aftur. Það væri mikil landhreinsun.

Logn, væta og 3 gráður. Hösmagi ákaflega vel fyrir kallaður að morgni dags. Dýrið góða á vappi hér í kring, ýmist utan eða innan dyra. Laugardagsmorgnar eru alveg yndislegir. Þó ég kunni að öllu jöfnu vel við mig í starfinu eru helgarnar góðar og nauðsynlegar. Þá gefst tími frá amstri daganna til að dunda sér hér heimafyrir og hugsa um lífið og tilveruna. Ég hef t.d. komist að því í þessum pæingum að heilinn í framsóknarmönnum hljóti að vera öðruvísi en í venjulegu fólki. Það bókstaflega getur ekki annað verið. Ég og hinn rauðhausinn, þessi með skottið fagra, sendum ykkur bestu kveðjur á þessum indæla morgni, ykkar Hösmagi, eilítið vinstrigrænn.

Comments:
Já, það er stundum ömurlegt að hugsa til þess hvernig er farið með þetta gjöfula land okkar og því deilt í skömmtum milli samviskulausra pólitíkusa með eigin rann ætíð efstan í sinni.
 
Litafræðingar sem voru áberandi fígúrur í tískuumræðunni undir lok níunda áratugarins staðfestu einmitt að grænt færi rauðhausum einkar vel, sérstaklega að vori þótt sjálfir væru rauðhausarnir "haust".
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online