Saturday, March 17, 2007

 

Riddarinn sjónumhryggi.

Við könnumst öll við Don Kíkóta. Bardagann við vindmyllurnar, þjóninn hans og hrossin. Þetta fræga ævintýri Cervantesar minnir nú á foringja framsóknarflokksins. Geir er reyndar ekki langt undan eftir viðtalið í sjónvarpinu í gær. Það er eins og raunveruleikinn sé gjörsamlega hulinn þessum mönnum. Þeir botna ekki neitt í neinu. Enda framsóknarflokkurinn miðjuflokkur og þjóðhyggjan alveg yfirgengilega mikil. Formaðurinn er ákaflega sjónumhryggur nú. Hann fékk auðlindaákvæðið í hausinn af því stjórnarandstaðan sveik gefin loforð. Og varaformaðurinn neitar að trúa því að skoðanakönnun Gallups sýni 6,9% fylgi flokksins. Guðna virðast líka allar bjargir bannaðar. Jafn sjónumhryggur og fyrirbærið í formannsstólnum. Ég hélt að ríkisstjórnarflokkarnir væru með meirihluta á Alþingi. Af hverju knúðu þeir ekki áform sín fram með þessum sama meirihluta? Þá hefðu þeir staðið með pálmann í höndunum og getað sagt að þetta hafi þeim nú tekist þrátt fyrir alla óþjóðhollu fávitana í stjórnarandstöðunni. Málið er líklega ekki svona einfalt. Það kemst stundum upp um strákinn Tuma. Þetta mál snérist einfaldlega í höndunum á þessum mönnum. Enda ákvæðið svo loðið og teygjanlegt að þeir skildu það ekki sjálfir. Handónýtt drasl og að mínu mati algjör andstæða við þann tilgang sem það á að hafa. Þetta finnst reyndar ansi mörgum öðrum júristum líka.Nokkurskonar staðfesting á þjófnaðinum á auðlindum sjávar. Véfréttin mun aldrei styggja drauginn. Það er hennar ógæfa. Upphaf hennar og endir. Og eins og staðan er nú á hún ekki fluguséns á að verða þingmaður. Meðan formaður og varaformaður haga sér eins og trúðar í sirkus er engin von um að flokkurinn hressist. Svo botna þeir ekkert í því að hann skuli vera gjörsamlega á rassgatinu. Mín tilfinning er sú að nú verði aurarnir ekki sparaðir til að reyna að koma nýju andliti á flokkinn fyrir kosningarnar. Þeim tókst það bærilega síðast. En nú munu þeir ekki uppskera á sama veg. Þessi níræði stjórnmálaflokkur er búinn að vera.
Frjálslyndi flokkurinn virðist líka vera að dala. Vonandi þurrkast hann alveg út í kosningunum. Það er enn möguleiki á að Sf. braggist. Sá flokkur verður þó að horfast í augu við staðreyndir ef VG verður stærri. Ef það besta úr báðum nær saman gætum við gert góða hluti. Ef við þurfum frjálslynda flokkinn með í meirihluta þá er eins gott að sleppa tilrauninni. Það yrði vonlaus vegferð frá upphafi.

Kimi Raikonen er kominn á ráspólinn í Ástralíu. Ég er viss um að ef hann hefur góðan bíl mun hann verða heimsmeistari í Formúlu 1 þegar keppni lýkur í haust. Ég hef reyndar aldrei haft neinn áhuga á ítölskum rennireiðum. Aldrei haft neina löngun til að eignast Fíat. Samt sem áður mun ég halda með þessum geðþekka finnska ökufanti. Eins og með Hakkinen forðum daga. Kötturinn Kimi er örugglega sama sinnis. Með ljúfri laugardagskveðju, ykkar Hösmagi.

Comments:
Sammála með Frjálslynda. Ég mun ekki styðja vinstristjórn með flokk sem sækir styrk sinn í atkvæði sem byggjast á tortryggni gagnvart innflytjendum. Satt best að segja skil ég ekkert yfirleitt í réttsýnu fólki í VG og Sf að velta slíku fyrir sér. Ef Sf og VG fara í stjórn með Frjálslyndum missi ég allt álit á þeim flokkum.
Við verðum kannski bara að horfast í augu við að kannski er illskársti kosturinn þá að púkka enn einu sinni upp á Framsókn. Því hvað sem illt má segja um Framsókn, þá byggir hún málflutning sinn alla vega ekki á því að ala á ótta og andúð í garð þeirra sem síst eiga það skilið.
 
Ég hugsa reyndar að ekki nokkkrum alvörustjórnmálamanni detti í hug að hægt verði að stjórna landinu með manni eins og kollega mínum Jóni Magnússyni.Bólgnum af útlendingahatri og vill virkja allt sem hægt er. En mér sýnist nú varla ástæða til að verðlauna framsókn eftir það sem á undan er gengið.Verst af öllu væri þó ef stjórnin héldi velli. Það bara má alls ekki ske.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online