Thursday, March 08, 2007

 

Getnaður.

Í gær skriðu þau undan sæng sinni, Véfréttin og Geir. Vonandi hafa samfarir þeirra verið góðar eins og hjá Njáli og Bergþóru forðum. Og þetta par er nú ekki að tvínóna neitt við hlutina. Ávöxtur rúmfaranna strax kominn í ljós. Þau hafa tryggt okkur auðlindirnar. Við eigum fiskinn í sjónum, fossana og fjöllin. Þjóðin öll getur fagnað. Þetta er nú aldeilis árangur. En, en. Kannski fylgir nú böggull skamrifi. Þingið verður að samþykkja. Nema það eigi að gilda sama regla og hjá forverum þeirra varðandi stríðið í Írak. Allt er þetta með slíkum ólíkindum að furðu vekur. Annars á maður kannski ekki að verða undrandi þegar þessir menn eiga í hlut. Véfréttin getur nú sagt. Sjáiði hvernig ég tók hann piltar. Hér er sko alvöru formaður í alvöru flokki. Auðvitað er þessi krógi þeirra félaga algjört prump. Enda segja þeir sjálfir að þetta sé bara táknrænt. Svona puntblóm í stjórnarskrána. Fiskurinn í sjónum verður áfram eign vina þeirra. Draugurinn þarf ekki að óttast neitt.Í lögunum um stjórn fiskveiða er líka ákvæði um að við eigum þennan fisk. Svona fíflalæti breyta nákvæmlega engu. Enda ekki til annars en þyrla upp ryki rétt fyrir kosningar. Dreifa athygli lýðsins frá umhverfismálum, vaxandi misskiptingu , óréttlæti og einkavinavæðingu. Og " verkstjórn" Geirs var frábær að sögn Véfréttarinnar miklu. Hann hefur sennilega ráðið stellingunni í ástaleik þessa samlynda pars. Þetta töfrabragð og öll syndarmennskan í kringum það mun engu breyta. Þetta minnir á nýju fötin keisarans. Parið er ekki í neinu.Verk þessara manna og flokka þeirra æpa á okkur.Sauðagæran sem þeir lágu undir við þessa athöfn sína breytir ekki úlfssvipnum á fésum þeirra. Við vitum alveg hvað þeir munu gera ef þeim verður treyst fyrir áframhaldandi völdum. Landsvirkjun mun verða afhent réttum aðilum. Það mun ekki verða mikils virði fyrir okkur að eiga fjöllin, fossana og allan jarðhitann. Fiskinn og allt annað sem lífsgæði okkar byggjast á.Enda bara táknrænt. Einskisverð puntblóm.
Því miður verða einhverjir sem ekki sjá í gegnum svona trikk. Það voru líka margir sem dáðust að nýju fötunum í ævintýrinu. Vonandi fáum við alvöruríkisstjórn eftir kosningarnar. Losum okkur við trúða og töframenn. Loddara sem einskis svífast í að villa á sér heimildir og reyna að vera eitthvað annað en þeir raunverulega eru. Rekum þá af höndum okkar þann 12. maí n.k.

Við kisi erum jafnhressir og venjulega. Og vináttan mun endast meðan báðir lifa. Hann hefur þó það fram yfir mig að þurfa ekki að fylgjast með þessu fáránlega leikriti sem nú er á fjölunum. Leikriti, sem við skulum púa á og leysa aðalleikarana endanlega frá hlutverki sínu.

Með vorkveðju, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online