Thursday, March 29, 2007

 

Nauðgun og guðlast.

Ekki batna þeir meðlimir spaugstofunnar. Þeir voru kærðir fyrir guðlast um árið og nú eru ýmsir áfjáðir í að þeir fái kárínur fyrir að hafa nauðgað þjóðsöngnum. Sungu um smáblómið eilífa sem tilbæði Alcan og gæfi síðan upp öndina. Fyrsti maðurinn á moggablogginu sem benti á þetta alvarlega lögbrot var Eyþór Arnalds. Vitnaði í lögin um þjóðsönginn og var ekki í nokkrum vafa um sektina. Ég er að sjálfsögðu þakklátur þegar löghlýðnir borgarar benda mér á glæpagengi sem einskis svífast. Eyþór yrði góður starfskraftur hjá saksóknaraembættinu. Þar eiga menn að hafa vakandi auga á athöfnum borgaranna og grípa inní og góma skálka sem fremja lögbrot.
Mér finnst þjóðsöngurinn lítið skemmtilegur. Þungur og erfiður í flutningi. Og textinn er sálmur frá 19. öld. Lagið hægfara og maður bíður bara eftir að flutningnum ljúki. Ég sæi ekki eftir honum ef ákveðið yrði að breyta til. Helgislepjan og viðkvæmnin gagnvart þjóðsöngnum og fánanum er hvimleið. Þeir sem nú gala hæst og vilja þá spaugstofustráka í tugthúsið sögðu lítið þegar við réðumst inn í Írak. Ef eitthvað var vanvirðing við íslenska fánann og þjóðerni okkar, þ.m.t. þjóðsönginn, var það ákvörðunin um stuðning við hinar staðföstu og morðóðu þjóðir. Ég ætla að vona að ekki gleymist hverjir það voru sem fyrir því stóðu. Þeir eru að nafninu til horfnir úr pólitíkinni. Það kemur þó í ljós annað slagið að þeir eru enn við sama heygarðshornið. Annar annars heims og heldur í spottana og hinn í musterinu og hefur ekki enn lært venjulega mannasiði. Dýrkeypustu menn í gjörvallri pólitískri sögu landsins.
Háðið getur verið biturt. Og hvað er verra nú en að benda á sleikjuganginn gagnvart eigendum álversins í Straumsvík.Það er eiginlega miklu verra en venjulegt guðlast eins og um páskana forðum. Persónunjósnir auðhringsins eru nú til athugunar. Hvernig sem þessi íbúakosning suður í Hafnarfirði fer er hún gott dæmi um skrumskælingu á lýðræðinu. Það sjáum við a.m.k. sem ekki trúum á guðinn Alcan.

Þó hitastigið sé nú við núllið er mikill vorhugur kominn í Hösmaga gamla. Blankalogn og löngu orðið bjart. Á næstu dögum er ætlun hans að láta afmarka fyrirheitna landið með stikum og flöggum. Langar að planta fyrsta trénu þann 27. apríl. Styttist í páskafríið, vor, sumar og sælu. Bestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online