Sunday, March 18, 2007

 

Sök eða sýkna?

Forstjórar hinnar þríhöfða olíumafíu sluppu fyrir horn í vikunni. Mennirnir sem þverneituðu að hafa nokkurntíma plottað um allt svindlið. Þegar búið var að sauma nægilega að þeim báðu þeir sér griða í fjölmiðlum. Báðu okkur um fyrirgefningu á samræði um svindl. Svindl, sem var ekkert nema rán um hábjartan dag. Og líka að næturþeli. Lagaskógurinn okkar er stundum þykkur. Og auðvelt að villast í honum. Það var á lagatæknilegum forsendum að málinu gegn þeim , sem voru búnir að játa sakir, var vísað frá Hæstarétti. Ég minntist á það hér í fyrra að ég gæti ekki skilið að félag gæti haft sjálfstæða hugsun. Tölvan, bensíntankurinn eða peningakassinn. Það er auðvitað mjög slæmt að menn sem sannanlega eru sekir skuli sleppa. Þeir hefðu átt skilið að fá að dvelja á Eyrarbakka um tíma. Einn þeirra er forstjóri enn í dag. Og samkeppni þessara félaga er engin. Hækka öll verðið á dreitlinum um sömu upphæð á sama klukkutímanum. Síðast var verðið hækkað fyrir örfáum dögum. Hækkandi heimsmarkaðsverð hét það þann daginn. Sama morgun og þetta gerðist hafði verðið hinsvegar fallið töluvert. Þeir sem sífellt tönnlast á trúarsetningum frjálshyggjunnar hljóta að vera glaðir. Einstaklingsframtakið að verki. Sem felst reyndar oftast í ótakmörkuðu frelsi til að svindla á náunganum. Þessir trúbræður vilja líka einkavæða alla samfélagsþjónustu. Þetta á þegar að nokkru leyti við í heilbrigðisþjónustunni, t.d. tannlækningum. Það er svo komið hér á landi að fátækustu fjölskyldurnar hafa ekki efni á að senda börnin til tannlæknis. Þetta sýnir í hnotskurn að kenning mín um frjálshyggjupostulana er rétt. Einkareksturinn verður réttur hinna sterku til að troða á hinum smáu. Og það hefur sýnt sig með óumdeilanlegum hætti að einkavæðingin verður til þess að hækka verðið á þjónustunni. Það sanna t.d. bankarnir og síminn. Við skulum snúa af þessari braut. Stöðva þá ótakmörkuðu græðgisvæðingu sem tröllríður öllu undir stjórn íhalds og framsóknar.

Raikonen fór létt með að landa sigri í Ástralíu í nótt. Þessi sérútbúni Fíat reyndist " bara nokkuð góður" eins og allir bílarnir hans Sverris bílasala. Við nafni hans fylgdumst með og urðum harla glaðir að leikslokum. Við hlökkum báðir til næsta kappaksturs.
Veðrið hér er nú sérlega fallegt. Allt alhvítt og sól hátt á lofti. Svolítið kalt í norðangjólunni. Svo hlýnar aftur þegar líður á vikuna og líklega hverfur snjórinn fljótt. Ég mun ekki sakna hans fremur en vant er. Nokkur framtöl farin á öldum ljósvakans og nokkur í farvatninu. Þrátt fyrir óréttlæti, svindl og svínarí, erum við kisi minn hressir og kátir. Sólbjartar sunnudagskveðjur til ykkar krúttanna, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online