Monday, March 12, 2007

 

Apríllinn.

Apríl hefur mér alltaf fundist góður mánuður. Frá því ég var smápatti. Það var nú ekki ofgnótt auðæva í búi foreldra minna í gamla daga. En ævinlega fengum við krakkarnir sumargjafir. Mömmu fannst sumardagurinn fyrsti vera mikill hátíðisdagur og þennan dag var alltaf eitthvað gott á borðum. Sannarlega minnist ég þessara daga með gleði og þakklæti. Nú er þessi smápatti nýorðinn 63 vetra. Og sumra. Og tilhlökkunin til fyrsta sumardags byggist á því að eiga aukafrídag. Þegar páskar bera uppá apríl er þetta alltaf sá mánuður sem gefur flesta frídaga. Þeir eru 13 í ár og voru 14 í fyrra. Landið byrjar líka gjarnan að ilma á þessum árstíma. Páskahretin nánast úr sögunni. Við búum nú samt á sömu breiddargráðunum og sagt var að heimsskautsbaugurinn hafi legið eftir miðju hjónarúmi hreppsstjórahjónanna í Grímsey. Annað sunnan við og hitt norðan við. Kannski hafa börnin þeirra bara orðið til nákvæmlega á baugnum. Ég ætla að vona að byggðin haldist á þessari eyju á norðurhjara. Og það jaðrar eiginlega við að það sé skömm að því að hafa ekki komið þarna. Gæti trúað að ekki væri leiðinlegt að fara á sjóstöng þaðan á fallegum vordegi. Með skáldi, lyfjafræðingi og fleiri afkomendum. Verst ef aflinn yrði gerður upptækur af liðinu sem telur sig eiga fiskinn í sjónum. Mér finnst samt erfitt að skilja hvernig ég geti stolið eigin fiski. Kannski bara berrassaða parið sem skilur það.
Nú er bara rétt um vika í vorjafndægur. Hænufetin lengjast og hér ríkir nú kyrrð og hitinn vel yfir frostmarkinu. Sama rútínan hjá mér og kisa. Snemma á fótum og samkomulagið gott. Að venju er ég að huga að skattskilum þessa dagana. Keisarinn þarf sitt eins og vant er. Af kökunni sem þjóðin bakar. Misskipting auðsins heldur þó áfram að vaxa. Við skulum taka til hendinni og minnka óréttlætið í þessu þjóðfélagi. Við getum það. Tækifærið er framundan.

Við Kimi, sem nú horfir fránum augum sínum á hrafninn á ljósastaurnum, sendum ykkur öllum góðar kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Ferð á norðurhjara á fallegum sumardegi hljómar sannarlega vel. En svo líst mér líka prýðisvel á snemmbúna sumarferð í Frostastaðavatn. Þar er krökkt af bleikju sem tekur fluguna vel. Hvernig hljómar þetta, þegar snjóa leysir af friðlandi? Bestu kveðjur frá París, Sölvi
 
Þetta hljómar alveg sérlega vel. Alltof mörg ár síðan undirritaður hefur komið á þessar slóðir. Maí verður góður. Kv. Hösi.
 
Jamm þetta verður gaman. Maílok eða kannski júníbyrjun til að spara lopann. Bestu kveðjur, meðstjórnandinn
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online