Friday, March 23, 2007

 

Feluleikur.

Samkvæmt skoðanakönnunum hefur Sf. misst u.þ.b. þriðjung af kjörfylgi sínu í síðustu kosningum. Og það virðist fátt benda til nokkurs bata. Ég tel mig nú hafa nokkra skýringu á þessu. Þetta er gamla haltu mér, slepptu mér, aðferðafræðin. Engan má styggja fyrir kosningar. Það er slegið úr og í og forustan er ósamstíga. Þetta er örugglega mjög slæmt fyrir flokkinn. Fólk vill vita hvað það er að kjósa. Fyrir hvað flokkurinn stendur. Efsti maður Sf í Kraganum er jafnframt bæjarfulltrúi flokksins í Hafnarfirði.Það var viðtal við hann í útvarpinu í morgun. Ekki nokkur leið að draga uppúr honum hvort hann væri fylgjandi stækkun álversins eða á móti stækkun. Sin prívatskoðin skipti ekki máli.Það er vitað að kratar eru klofnir í málinu. En ekki mega kjósendur fá að vita afstöðu þessa þingmannsefnis Sf. Svona vinnubrögð virka einfaldlega ekki í pólitíkinni nú um stundir. Krötum er að vísu nokkur vorkunn. Þeir eru að vonum ókátir með stöðu sína. Fólk vill bara skýrar línur. Og það virðist vera um seinan fyrir Sf að hysja upp um sig. Þeir sem hafa yfirgefið fleyið snúa ekki til baka að sinni. Stóri flokkurinn sem átti að vera mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn er bara draumsýnin ein. Sem stendur svona eins og helmingurinn af honum. Menn verða að hafa einurð til að hafa skýra stefnu og þor til að standa við hana. Órækasta sönnunin er núverandi staða vinstri grænna. Menn velkjast ekki í vafa um stefnuna þar á bæ. Ég ætla þó að vona að orð Ingibjargar Sólrúnar um pilsnerfylgi framsóknar verði ekki að áhrínsorðum á henni sjálfri. Það er öllum ljóst, nema kannski sumu flokksfólki Sf, að þeir þurfa í naflaskoðun. Gjörbreyta vinnubrögðum sínum m.a. til að fólk viti hvað það er að kjósa. Þegar ég hugsa til baka um það sem ég hef skrifað um Sf hér í þessum pistlum s.l. 2 ár finnst mér í raun með ólikindum hvernig spár mínar hafa gengið eftir. Og það er ekki langt síðan hlegið var að mér fyrir að halda því fram að VG gæti orðið stærri en Sf fyrir kosningar. En gömlu máltækin standa fyrir sínu. Sá hlær best sem síðast hlær. Sendi vinum mínum í Sf batakveðjur.

Snjórinn að hverfa. Föstudagur á fljúgandi siglingu og vorið nálgast. Bestu kveðjur til Parísar, Köben og hreint út um allt, ykkar Hösmagi.

Comments:
Jamm, takk fyrir kveðjurnar. Nú fer að líða að meiri ferðalögum hjá okkur Helgu. Indland í næstu viku í gegnum london og amsterdam, 24 tíma ferð þar. Bestu kveðjur í vorið á Íslandi, upp að Tangavatni og á Fjallabak. Sjáumst þar í sumar, Sölvi
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online