Friday, March 09, 2007

 

Puntblóm.

Það þykir voða fínt að njörva niður ýmis réttindi í stjórnarskrá. Í sjálfu sér góðra gjalda vert. En það er alþekkt staðreynd að verstu einræðisríki heims eru með flottustu stjórnarskrárnar. Þar eru mannréttindi tryggð í bak og fyrir. Idi Amin hafði nú aldeilis flott plagg. Hann var þó ekki annað en morðóður einræðisherra. Sagan segir að hann hafi jafnvel étið samborgara sína. Skrípaleikurinn á Alþingi þessa dagana er lítið annað en lýðskrum af versta tagi. Véfréttin telur sig hafa slegið pólitíska keilu. Og Geir fær pre frá sumum fyrir að vera ígulsnjall og yfirvegaður. Við höfum ekkert með þetta auðlindaákvæði að gera í stjórnarskrána. Reyndar miklu verra en ekkert. Festir aðeins kvótakerfið í sessi. Mörg okkar eiga sína eigin íbúð. Hversu mikils virði væri það ef nýtingarrétturinn væri annara? Þegar við kæmum heim úr vinnu sæti þar ókunnugt fólk sem hefði afnotaréttinn. Vertu úti góði. Halda menn virkilega að það verði einhver ávinningur af þessum bjálfagangi? Af hverju erfði draugurinn fiskinn minn? Sameign mína með öðrum þegnum samkvæmt lögunum um stjórn fiskveiða. Finnst ykkur sanngjarnt að menn labbi út úr útgerðarfyrirtækjum með hundruð milljóna? Eða 3 milljarða eins og einn samherjinn?Lifi í vellystingum praktuglega suður á Spáni fyrir fiskinn minn og þinn? Kvótakerfi draugsa er svívirðilegasti þjófnaður íslandssögunnar. Við þurfum að sjálfsögðu að hafa stjórn á fiskveiðum okkar eins og öðru. En við skulum ekki lögfesta ákvæði í stjórnarskrá sem í bókstaflegri merkingu sýknar þjófinn. Aflaheimildirnar ganga kaupum og sölum. Aðeins útvaldir njóta hagnaðarins. Ef ég sel íbúðina mína á ég þá að una því að einhver annar hirði andvirðið? Þegar vitlaust er gefið þarf að stokka spilin og byrja uppá nýtt. Því miður eru engar líkur á að við endurheimtum þýfið sem þegar er búið að koma í lóg. En það mætti nú gera tilraun til að stemma stigu við áframhaldandi þjófnaði. Því hefur verið haldið fram að Frjálslyndi flokkurinn hafi verið stofnaður til höfuðs kvótakerfinu. Því fer víðs fjarri. Hann var stofnaður af því Sverrir Hermannsson var rekinn úr Landsbankanum. Þessi flokkur hefur aldrei haft neinar hugsjónir eða nokkra stefnu. Það er ekki einu sinni hugmyndafræði á bak við rasismann í flokknum. Þetta er bara sorptunna fyrir lúsera í pólitík. Það sanna menn eins og Valdimar Leó og Jón Magnússon. Það væri landhreinsun að því að jarða þennan flokk við hlið framsóknar.

Hér er nú bókstaflega yndislegt veður. Sólin varpar geislum á hvíta slikju Ingólfsfjalls og Rakikonen stundar loftfimleika á handriðinu við svalaganginn á milli þess að hnusa af fóstra sínum hér innandyra. Kannski er hann áhættufíkill eins og Sölvi sagði.
Mér þótti nú hólið frá eldri syninum ágætt. Að sjálfsögðu ætti öll þjóðin að lesa þessa snilldarpistla mína. Ég les nú heilmikið af moggablogginu. En ég hef nú ekki lagt í að blogga þar. Þá sæi fólk kannski að því væri best að hætta. Svona eins og Bjarni Thorarensen hugleiddi að hætta að yrkja eftir að hann las Gunnarshólma Jónasar.

Ég kasta á ykkur kveðjum, krúttin mín, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online