Wednesday, June 21, 2006

 

Black fingernail.

Það er hálfgert óstand á Hösmaga garminum þessa dagana. Á mánudaginn varð hann sér úti um svarta nögl á löngutöng hægri handar og rauðan bendifingur þeirrar vinstri. Tókst með einhverjum óútskýrðum hætti að skella skottlokinu á litla Lanca á báðar lúkurnar. Vogrís hefur látið á sér kræla í hægra auga og í gær helltist gigt yfir karlgreyið. Kannski hin stífa norðanátt sem veldur þessu. Á ekkert segularmband eins og sumir nota við þessu. Það verður að standa þetta allt af sér svo hægt sé að þræla áfram fyrir kapitalistana. Hösmagi staðráðinn í að halda ró sinni þrátt fyrir þessar hremmingar.
Áin er bara nokkuð efnileg núna. Þokkalega hrein og lækkandi eftir rigningarnar. Verður líklega kjörvatn þegar veiði hefst á laugardaginn. Kannski að nýi bæjarstjórinn sýni snilld sína. Hann er sagður kjarnakvenmaður. Fjórum sinnum hefur undirrituðum tekist að veiða fyrsta lax sumarsins úr ánni. Það er að sjálfsögðu óhemjulega skemmtilegt. Og einu sinni var koníak í verðlaun. Það rann ljúflega niður kverkarnar en entist þó fram á haust.Í seinni tíð er Hösmagi reyndar orðinn andskoti linur við veigarnar. Alltaf er þó nóg til á heimilinu enda gestir fáir. Heimilislimirnir halda sig aðallega við vatn og kóka kóla.Og lífdrykkinn kaffi. Þegar nóg er að starfa er ekki tími til að drekka áfenga drykki. Það hefur reynst Hösmaga ærinn starfi að drekka og þá er ekki timi til annara hluta. Og að auki er kaupið ekki hátt við drykkjuna. Hún verður því að víkja fyrir öðru. Sama kyrrðin yfir öllu hér. Raikonen hefur lagt sig aftur eftir nokkra útiveru.Býst nú við að halda til starfa klukkan 9 þrátt fyrir auman skrokk. Styttist í dásemdir helgarinnar við útiveru og veiði. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi, hlaðinn kaunum.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online