Monday, June 05, 2006

 

Naflaskoðun.

Samkvæmt Hjálmari Árnasyni ætla framsóknarmenn nú að skoða naflann á sér. Það er nú sennilega öllum hollt að staldra við og líta í eigin barm. Sorgarsaga þessa gamla flokks á sér auðvitað nærtækar skýringar. En forustumennirnir skilja ekki ástæðurnar. Finnst bara að allir séu vondir við flokkinn og ef hann er gagnrýndur er bara verið að koma höggi á hann eins og þeir nefna það. Í gamla daga var hluti af flokknum svokallaðir framsóknarkommar. Nokkuð róttækir samvinnumenn sem var illa við hersetuna. Þeir eru ýmist dauðir eða farnir úr flokknum. Flokknum sem síðustu áratugi hefur einungis fylgt hentistefnunni. Með formann sem dró okkur í stríðið í Írak. Formann sem búinn er að lifa eftir helmingaskiptareglum íhalds og framsóknar. Hann fékk t.d. Búnaðarbankann en íhaldið Landsbankann. Og svo eru hugmyndir um að gera Finn Ingólfsson að formanni. Líklega margar merarnar sem sá maður hefur eignast með helmingaskiptareglunni. Merar, jarðir og lausa aura. Halda menn að breytingar verði til hins betra ef hann tekur við. Ekki kemur mér það til hugar. Ekki ætla ég að ráðlegga framsókanarmönnum eitt eða neitt. Nema þá kannski að breiða ekki yfir nafn og númer eins og þeir gerðu svo rækilega í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum. Ef eitthvað er verulega ógeðfellt í stjórnmálum landsins nú er það framsóknarmennskan.Best væri auðvitað ef þeir legðu þetta fyrirbæri niður.

Búið að rigna heilmikið. Líklega komið maðkaveður. Vil nú helst alltaf hafa orminn nýtíndan. Nú eru nákvæmlega 20 dagar í laxinn. Sumir geyma nú bara ormana í ísskápnum hjá sér. Ég ætla allavega að athuga þetta í kvöld. Túban og spúnninn eru reyndar afar skemmtileg veiðarfæri. En það er nauðsynlegt að hafa maðkinn með. Í ána, maðkur, eins og maðurinn sagði.
Heimsótti systur mína og mág í gær. Hann varð 65 ára og kræsingar miklar á borðum að venju. Hafði vit á að borða lítið áður en ég fór og kom svo vel saddur heim um kvöldmatarleytið. Alltaf ljúft að heimsækja þau góðu hjón. Þarna voru líka hin systkyni mín 2. Við erum nú orðin 270 ára en bara öll nokkuð spræk ennþá.
Kveð að sinni, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online