Monday, June 12, 2006

 

Rauðka.

Sumarið 59 var ég í síld á Siglufirði. Stúaði mjöli í 100 kg. strigasekkjum. Þrælavinna frá 7 á morgnana til miðnættis Verksmiðjan hét Rauðka.Sofnaði á kvöldin áður en hausinn lenti í koddanum. Og angandi af mjöli. Þetta var þó heilmikið ævintýri og gott fyrir ungan pilt að kynnast þessum atvinnuvegi.
Ég keypti mér enn einn bílinn í gær. Ég nefni hann Rauðku. Rauður Toyota Corolla. Borgaði lítið verð fyrir þennan vagn. Hann er með dráttarkúlu, geislaspilara og svo fylgdu honum 11 dekk og 9 felgur. Vélin 1300 rúmsentimetrar og aflið 80 hestöfl. Held að hann sé bara nokkuð góður. Eyðir einhverjum dverg af eldsneyti og lipur og léttur í akstri. 5 gírar áfram og einn afturábak. Öfugt við ítölsku skriðdrekana sem höfðu einn áfram og 5 afturábak. Sem stendur hefur skáldið sameign okkar feðga, Lancerinn. Rauðka er reyndar svolítið upplituð að utanverðu en er voðalega fín að innan. Hún kemur í stað vespunnar bláu sem neitaði alveg að ganga austan Hellisheiðar. Vespudraumurinn er þó alls ekki úr sögunni. Við skulum sjá til hvað framtíðin ber í skauti sér.
Uppstytta nú eftir mikla rigningu í gær. Og hitastigið snarféll með norðanáttinni og er er nú 2,9°á Celcíusi. Svo fer hann víst að rigna aftur á morgun. Er þó að vonast eftir sæmilegu veðri þann 17. Ekkert gaman að fara í Veiðivötnin í slagveðri. Tólf dagar í fyrsta laxveiðidaginn og fiðringurinn byrjaður. Hef góða tilfinningu fyrir sumrinu. Eins og jafnan áður. Og nú verð ég í fríi alla mína veiðidaga. Voða gott að leggja sig í hléinu og sleppa alveg við kontórinn. Fremur rólegt yfir fasteignasölunni sem stendur. Vextir hækkandi og verðbólgan yfir 16%. Og ríkisstjórnin yfirmáta ánægð með verk sín. Og eftirlaunaráðherrunum fjölgar stöðugt. Og nú geta þeir Davíð og Dóri farið að naga blýantana saman. Það er ömurlegt að Seðlabankinn skuli vera hvíldarheimili fyrir þessa menn. Dóri ku vera menntaður í bókhaldi. Væntanlega hæfari öðrum mönnum í þetta starf. Það skiptir þó auðvitað engu í þessu sambandi. Flestir stjórnmálamenn halda því fram að reynsla þeirra sé svo merkileg að þeir séu öðrum hæfari til allra vellaunaðra starfa. Auðvitað er þetta bara firra. Sumir þeirra kunna ekki annað en maka krók sinn. Sitja við pottana og éta bestu bitana. Plotta sín á milli um auðinn og völdin. Landlægur sjúkdómur margra stjórnmálamanna hér. Ég ætla nú ekki að nefna holdgervinginn einu sinni enn. Merarkónginn sjálfan. Sannarlega ógeðfelld mannherfa.
Kaldur strókur inn um gluggann. Sól hátt á lofti enda stutt í Jónsmessubaðið. Bestu óskir til ykkar á þessum fallega morgni, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online