Thursday, June 29, 2006

 

Hægviðri.

Föstudagur og sæmilegasta veður.Indælt helgarfrí að vinnudegi loknum. Veiði í fyrramálið. Hæfilegar væntingar. Nú hafa veiðst 14 laxar í Ölfusá og 35% yfir 10 pundum. Besta byrjun í ánni í áraraðir. Undanfarin ár hefur undirritaður ekki veitt lax í júnímánuði. Hyggst vera við laxveiði í 11 daga í júli, auk Veiðivatnareisu. Ef ég veiði ekki nokkra fiska alla þessa daga mega allir hundar heimsins heita í höfuðið á mér. Líklega kólnar aðeins til morguns. Samt þokkaleg spá og nýju vöðlurnar fá væntanlega eldskírnina á morgun. Kominn tími á æskrímið sem hefur reynst mér ákaflega gjöful túpa. Abdúllah reykir, æskrím étur hann, er ekki sál hans skrýtin vítahringur. Bara góð tilfinning fyrir morgundeginum.
Þvælingur á undirrituðum í gær. Fór austur að Lambafelli undir Eyjafjöllum að skoða lítið gistiheimili. Fornfrægt hús úr Hafnarfirði, rúmlega aldargamalt. Var ekki frá því að hafa heyrt óm af nið aldanna í salnum á efri hæðinni. Snoturt og vinalegt hús sem forðað var frá niðurrifi og fékk nýtt hlutverk í fallegri sveit. Eftir hádegið skrapp ég svo niður á strönd að líta eftir Stokkseyringum. Þeir undu glaðir við sitt með draugunum í gamla frystihúsinu. Heilmikið framundan í dag og Hösmagi tekur deginum fagnandi.
Einhvernveginn hafa fjölmiðlar þefað uppi verðandi hollvinafélag Ingólfsfjalls. Það er gott. Vísir.is, Fréttablaðið og í gær hringdi kona frá Glugganum. Ég fullvissa Sigga sænska um að hann verður stofnfélagi hvar sem hann verður staddur í veröldinni á stofnfundi félagsins. Ég er sannfærður um að þeir verða nokkuð margir. Vonandi náum við einhverjum árangri. Helst vildi ég fá einhverja bæjarstjórnarmenn með okkur. Efast nú ekki um Jón Hjartarson, fulltrúa vinstri grænna. Mun kanna þetta betur er líður á sumarið. Sem sagt gott, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online