Thursday, June 15, 2006

 

Berr er hverr......

at baki nema sér bróður eigi. Ég var að lesa málefnasamning íhalds og framsóknar hér í Árborg. Ósköp finnst mér hann nú þunnur á vangann. Og umhverfismálin felast í nægu lóðaframboði og flokkun sorps. Svo á að laga gömlu göturnar og gangstéttarnar. Kannski verður hringt í Sigga Kalla svona einu sinni á kjörtímabilinu útaf Tryggvagötunni. Það verður verkefni verkefnastjóra umhverfismála sem nýi meirihlutinn ætlar að ráða. Ég ætla þó alls ekki að gefa frat í nýja bæjarstjórn strax. Óska henni velfarnaðar í störfum. Við fylgjumst með henni, styðjum hana til góðra verka og veitum henni aðhald. Fyrst útilokaði hún fulltrúa VG frá því að eiga áheyrnarfulltrúa í bæjarráði. Svo sáu þessir vinir lýðræðisins að sér. Nonni fær að fylgjast með. Í mínum huga hefðu markmiðin þurft að vera miklu skýrari og ákveðnari. Hvað um stjórnsýslu bæjarins? Miðjuna, önnur umhverfismál en lóðir, gömlu göturnar og sorpið? Ég lýsi eftir afstöðu nýja meirihlutans til námuvinnslunnar í Ingólfsfjalli. Og neita að taka til greina afsakinir um að hún sé í öðru sveitarfélagi. Er nýi meirihlutinn sammála dellunni um að kostnaður við hvern húsgrunn hækki um 2 milljónir ef grúsin verður sótt annað? Miklu fleiri spurningar síðar.
Enn að spá í Veiðivötnin á morgun. Litlar líkur á sól en kannski verður þokkalegt veður samt sem áður. Og ekki kvíði ég að missa af hátíðarhöldum hér. 5-6 kórum með 10 lög hver og nokkur aukalög. Fyrr má nú syngja en kafkyrja. Og skeifuGeir í stað Dóra staðfasta. Álíka áhugaverðir. Og ástandið hjá framsókn batnar dag frá degi. Sókn hafin í gær. Og framtíðin ákaflega björt í dag.Ósköp finnst mér að þetta fólk sé nú úti á þekju og uppí rjáfri. Og viðskiptaráðherrann nýi er þrunginn af yfirburðaþekkingu á þjóðlífinu. Á öllum sviðum. Þessi nýja ríkisstjórn mun ekki gera neitt skynsamlegt. Sem stendur er landið stjórnlaust. Eða verra en það. Verðbólgan meira en þreföld við það sem hún hefur mest verið s.l. 20 ár. Þetta þyddi t.d. að það kostaði mig 222.000 krónur að búa í íbúðinni minni í maí.Og ríkisstjórnarflokkarnir munu hugsa um það eitt að reyna að bæta vígstöðu sína fyrir komandi kosningar. Ekkert virðist þó í spilunum sem bendir til að framsóknarmaddaman hressist. Hangir nú á annari lúkunni á grafarbakkanum. Það kallar hún sjálf bjarta framtíð. Það er nú aldeilis raunsæi. Miðað við hugsjónaleysi og valdasýki Samfylkingarinnar með Sollu stirðu í fararbroddi sé ég næstu ríkisstjórn verða stjórn íhalds og vinstri grænna. Örugglega það skásta í stöðunni nema samfylkingin taki upp á því að hafa stefnu í einhverju öðru en afstöðunni til EBE. Get tekið undir með Steingrími að við þurfum velferðarstjórn.Við skulum afnema verðtrygginguna. Kannski í áföngum. Breyta fiskveiðistefnunni og hætta einkavinavæðingunni, sem hefur valdið okkur meira tjóni en allt annað frá upphafi landnáms. Það er líka til millivegur í því að tína fjallagrös og að koma upp álveri á hverju krummaskuði.Kannski gerast kraftaverk.
Kærar kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online