Wednesday, June 21, 2006

 

Sumartíð.

Held að sumarið hafi komið í nótt. Sól er nú hátt á lofti eftir rigningu í gær. Þegar ég sá í gærmorgun að farið var að rigna lagðist ég á bæn um að hann héldi áfram í allan gærdag. Ég hafði klúðrað allri maðkatínslu og vertíðin að bresta á. Fór snemma að sofa og lét klukkuna hringja kl. 11. Um miðnættið laumaðist ég svo í garðinn til Immu og þar gengu öll áform mín eftir. Var fljótur að næla mér í nógu marga orma fyrir fyrstu veiðidagana. Ég lagði mig svo aftur þegar heim kom og dreymdi að ég væri búinn að veiða 2 laxa. Það er greinilegt að hugurinn stendur til stórræða. Veiði 2 daga í júní og 11 í júlí, auk 2ja daga í Veiðivötnum. Júlí verður því örugglega indæll mánuður. Þarf heldur ekki að stressa mig á vinnu þessa daga. Það er sem sé bjart framundan í þessum efnum hjá undirrituðum. Það er afmælishátið hjá stangaveiðifélaginu á laugardaginn. Og áin opnuð um leið. 60 ár frá stofnun þessa ágæta félagsskapar. Hef verið félagi í 32 ár. Því miður hef ég ekki töluna á fiskunum sem ég hef veitt úr Ölfusá. Þeir eru þó nokkuð margir. Mest hef ég fengið 23 laxa á einu sumri og í fyrra krækti ég í 16 laxa úr fljótinu góða. Hef verið að kíkja eftir þeim silfraða undanfarna daga en ekki orðið var við hann enn. Kæmi þó ekki á óvart að eitthvað skemmtilegt gerðist á sunnudaginn. Þeir sem lesa bloggið mitt geta búist við veiðibloggi á næstunni. Læt þá kannski litla flokkinn með björtu framtíðina í friði rétt á meðan. Enda ekki fallegt að vera sífellt að berja á lítilmagnanum. Og jafnvel undir beltisstað stundum. En því verður vonandi sjálfhætt bráðlega. Það eru ekki miklar líkur á að þetta lifandi lík hjarni við. Erfidrykkjan á næsta leiti. Og syrgjendur fáir. Kærar kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online