Thursday, June 22, 2006

 

Áfangi.

Úrskurðarnefnd skipulagsmála hefur nú bannað að hreyfa við brún Ingólfsfjalls. Það er áfangasigur. Nefndin fær pre frá mér fyrir snögg vinnubrögð. Mér er sagt að verktakarnir hafi hamast sem óðir væru nú síðustu daga. Ég magna allar góðar vættir til að stöðva þá alveg. Þar sem sólin glampar nú á brún fjallsins sýnist mér allt vera léttara. Fyrr eða síðar munum við fá fjallið friðlýst. Fyrr vonandi.
Klukkan 9 í fyrramálið mun nýi bæjarstjórinn kasta agni fyrir laxinn í Ölfusá. Þetta er alltaf spennandi. Kaffi og rúnnstykki í boði félagsins í tilefni afmælisins. Undirritaður verður á bakkanum að fylgjast með. Reyni svo fyrir mér á sunnudaginn og aftur á þriðjudaginn. Svolítið merkilegur dagur 27. júní. Þá veiddi ég minn fyrsta lax fyrir 33 árum. Afmælisdagur föður míns sæla. Á 85 ára afmælisdegi hans 1987 fékk ég 5 laxa. Þeir voru 6, 13, 14, 16 og 18 punda. Sannarlega eftirminnilegur dagur. Nú virðist stóri laxinnn orðinn afar sjaldgæfur. Af þessum 16 sem ég veiddi í fyrra náði enginn 10 pundum. Er samt viss um að sá stóri taki hjá mér í sumar. Trúi því staðfastlega. Þá er maður líka kominn hálfa leið. Ekki er ég þó að vanþakka smærri fiskinn. Lofa veiðigyðjuna fyrir allar hennar gjafir. Allt klárt í veiðitöskunni. Hnýtti nýja tauma í gærmorgun, maðkarnir í fötunni og æskrímið hans Sölva míns tilbúið í slaginn. Veðurspáin hin besta svo þetta getur ekki verið öllu betra. Svo er bara að sjá hvort " hann sé við".
Líklega eru fáir í blogginu þessa dagana. Sem von er á þessum árstíma. Engin komment á mitt blogg lengi. Ritgleðin er þó enn til staðar. Og tilefnið ekki ávallt stórt. Kannski er þetta bara áráttuþráhyggja sem ég ætti að losa mig við. Reka endahnútinn á blaðrið. Þessi pistill er númer 200 og nú er nákvæmlega eitt og hálft ár síðan ég byrjaði hjá skáldinu og Helgu útí Edinborg. Heilmikið á daga drifið síðan og gangrimlahjólið heldur áfram að snúast.

Bestu kveðjur til ykkar allra á þessum indæla morgni, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online