Sunday, June 18, 2006

 

Töfrar.

Brá mér inní Veiðivötn í gær. Eftirlits- og skoðunarferð væri hægt að kalla það. Og töfrar Veiðivatnanna eru enn þeir sömu og jafnan áður. Dásamlegt að koma þar í gær í miklu indælisveðri. Urriðaveiðin hefur farið hægt af stað en nokkuð veiðst af vænni bleikju. Tók gamlan vin með mér og við rifjuðum ýmislegt upp á leiðinni. Pólitíkin að mestu gleymd en þó varð undirritaður að koma nokkrum höggum á framsóknarflokkinn. Flokkinn með björtu framtíðana í augum formannsins þó hann sé bara rjúkandi rústir.
Á hádegishæðinni fyrir sunnan Fossvötnin bærðist ekki hár á höfði. Útsýni ægifagurt og gott að gera þar stans. Samlokur, kók og maltöl. Og að sjálfsögðu vindill á eftir. Ók að Ónefndavatni og þar voru 2 menn að veiða á staðnum mínum. Vona að þeir hafi nú ekki alveg klárað allt upp. Eftir tveggja tíma yfirreið um Vötnin héldum við aftur til byggða. Þegar heim var komið var Green Highlander bókstaflega útklíndur í dauðum flugum. Það verður ærið verk að ná þessu af. Framnúmerið, sem er venjulega hvítt, er svart nú. Hvimleiður á öllum sviðum bévaður vargurinn. Skáldið og Helga litu hér aðeins við seinnipartinn og voru á leið á Þingvöll. Flugustöngin meðferðis. Þau héldu svo för sinni áfram á litlu Rauðku. Lancerinn skilinn eftir á Selfossi. Held að Raikonen þekki þau orðið og var hinn kátasti með heimsóknina. Þjóðhátíðardagurinn leið hratt. Var meira og minna í draumalandinu og lá svo í leti þess á milli. Hafi Svíagreyin eygt von um nægilega stóran sigur á okkur í handboltanum þá slokknaði hún endanlega undir lok leiksins. Þetta er í fyrsta sinn í sögunni sem Svíar komast ekki á HM í handbolta. Við skulum vona að við höfum endanlega gengið af svíagrýlunni dauðri. Bravó fyrir Alfreð Gíslasyni og liðinu hans.
Baráttudagur kvenna í dag. Ef ég ætti bleika skyrtu færi ég í hana í dag. Nota þá rauðu í staðinn. Þær eru nú alltaf alls góðs maklegar stelpurnar. Morgunróin yfir öllu hér og Raikonen steinsefur hér í stólnum. Fjallið íbyggið og vonar það besta. Með sumarkveðjum, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online