Tuesday, June 06, 2006

 

Regnið þétt......

til foldar fellur, fyrir utan gluggann minn. Það þekkja flestir seinnipartinn af vísunni. Sannkallað maðka- og grasveður. Vona nú að hann stytti upp svona einhverntímann fyrir haustið. Helga og skáldið væntanleg í dag frá landi stóru ormanna. Hvað skyldu þau tolla lengi við klakann? Þetta er auðvitað góður tími til að koma heim. Þ.e.a.s árstíminn. Landið virðist algjörlega stjórnlaust og annar stjórnarflokkurinn að leysast upp í öreindir sínar. Og Finnur steinhissa á að allir féllu ekki í stafi. Guðni nokkuð kokhraustur að vanda. Af hverju skyldi hann líka þurfa að fremja harakiri eins og formaðurinn staðfasti. Allur skrípagangurinn í kringum framsóknarflokkinn þessa dagana er bara spaugilegur fyrir okkur sem erum ekki á þessu vitfirringahæli. Menn vega þarna hvern annan í bróðerni. Mín spá er sú að illa gangi að sameinast um forystusauð fyrir þessa þokkalegu hjörð. Vegvillta af valdasýki og spillingu. Kannski er það verst að Finnur verður ekki formaður. Þá hefði jarðarförin endanlega verið afráðin.Og meðan sirkusliðið misstígur sig æðir verðbógan upp með stjarnfræðilegum hraða. Það verður ærið verk fyrir okkur vinstri menn að vinna þegar þessi ríkisstjórn gefur upp öndina. Því fyrr því betra. Það er enn möguleiki á að koma í veg fyrir að bankarnir hirði þúsundir íbúða af ungu fólki. Í það stefnir ef þessi helmingaskiptastjórn situr öllu lengur. Leggjumst á eitt um að koma henni burtu.

Bubbi 50 í gær. Ég óska honum til hamingu. En einhvernveginn er ég búinn að fá nóg í bili. Af þessum 6 stefum í 600 útgáfum. Það er svo með tónlistina eins og margt annað að of margar fjólur í of litlum garði verða bara þreytandi. Ég er þó alls ekki að gera lítið úr Bubba sem listamanni. Vildi samt geta kveikt á útvarpi og sjónvarpi án þess að þurfa bara að hlusta á hann. Óska honum velfarnaðar og endurnýjunar í tónsmíðunum. Kannski getur hann farið að ríma líka.

Regn og þokubakkar á fjallinu. Sé ekki fugla himinsins. Kettir hálfslappir. Drungi yfir mannlífinu. Dimmt en það birtir. Öfugt við litla flokkinn sem neitar að kannast við nafn sitt. Mínar bestu kveðjur úr drunganum, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online