Wednesday, June 14, 2006

 

Nú er úti......

veður vott. Green Highlander þurr og hlýr í bílskúrnum en aumingja Rauðka litla köld og blaut úti. En svona er nú ranglæti heimsins. Eins og sannast á framsóknarflokknum. Allir að argast útí hann og koma á hann höggi. Og það gæti endað illa. Innviðirnir grautfúnir, gamla samvinnuhugsjónin steindauð og lítið annað að en að bíða eftir dánartilkynningunni. Undirritaður ætlar þó ekki að mæta í jarðarförina. Mun bara fagna hér heima.
Las í gær grein eftir Jón Orm á vísi.is Hugleiðingar hans um caliber þingmanna. Forna aðferð um val á forustumönnum, m.a. hlutkesti. Jón Ormur er ágætur penni og margt gott sem hann segir. Og meðalmennskan hjá íslenska þingmanna- og ráðherraliðinu er alþekkt. Sumir telja sig betur fallna til að stjórna en aðrir. Svo leggst valdasýkin í ættir að auki. Sumir þingmannasynirnir byrja að halda framboðsræður um leið og þeir geta staðið í lappirnar. Yfir hrossum útí haga eða kýrrössum í fjósi. Það er kannski ljótt að segja það en hjá allt of mörgum er þetta bara valdasýki, forræðishyggja og heimska. Græðgi og eiginhagsmunir í fyrirrúmi. Okkur myndi farnast betur ef fleiri vel greindir hugsjónamenn væru á þingi.Því miður eru þeir flestir að fást við aðra hluti.
Og nú er litla frekjudollan Álgerður komin í utanríkismálin. Lætur skeifuGeir um kanann. Þetta verður auðvitað skárra því nú blaðar hún aðallega erlendis og við sleppum því betur. Og svo er þetta líka voða leiðinlegt með hana Sigríði Önnu. Litlu puntudúkkuna sem átti bara rétt eftir að klára öll góðu málin í umhverfisráðuneytinu. Íhaldskerlingagreyin flestar hágrátandi yfir þessari svívirðu. En þetta er bara í samræmi við annað. Ranglætið virðist ekki eiga sér nokkur takmörk í þessari veröld. Jónína skælbrosandi yfir eigin upphefð. Bara að brosið frjósi ekki í næstu þingkosningum. Og Maggi litli brosir líka. Trausti vinurinn músíkalski. Held hann hefði betur haldið sig þar.
Ég er farinn að halda að þeir skoðanabræður mínir, Steingrímur og Hjörleifur lesi bloggið mitt. Hjörleifur talar um harakiri Halldórs og Steingrímur að framsókn hafi breitt yfir nafn og númer. Kannski er þetta nú alls ekki svona. Miklu líklegra að hér sé hinn andlegi skyldleiki á ferðinni.En ég hefi sannfrétt að nokkrir íhaldsmenn lesi þessa pistla. Það fannst mér vera góðar fréttir. Ekki þurfa heilbrigðir læknis við eins og máltækið segir. Ég les líka margt eftir fólk sem ég er algjörlega ósammála. Við skulum hafa það hugfast að allir eiga rétt á að láta skoðanir sínar í ljósi. Og við skulum líka hafa það hugfast að það er ljótt að gera öðrum upp skoðanir. Rífum bara kjaft áfram og látum ekki kúga okkur. Jafnvel þó við lendum á svarta listanum hjá þeim Bush og co.

Við Kimi sendum ykkur kveðjur úr rekjunni, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online