Wednesday, June 28, 2006

 

Mannvit.

Mikið af því í framsóknarflokknum núna. Nýi spámaðurinn er svo þrútinn af mannviti að það hálfa væri meira en nóg. Skyldan kallar og hann er til þjónustu reiðubúinn. Svik á kosningaloforðum eru nú í þágu unga fólksins. Og Jónína styður hann þó fjöldinn allur af flokksfólki hafi sagt henni að þeir vilji hana. Og hún hefur ekki " tekið afstöðu til sjálfs síns" Mjög vitræn yfirlýsing. Guðni segist vilja frið um náttúruna. Og að stóriðjustefna Álgerðar verði endurskoðuð. Ég býð Guðna velkominn í flokk vinstri grænna þegar framsókn gefur öndina endanlega frá sér. Líklega er Guðni einn eftir af gömlu framsóknarkommunum sem nokkuð var til af hér á árum áður. Það skásta úr þessari tímaskekkju sem framsókn er nú orðin. Ef menn halda að Jón Sigurðsson muni bjarga framsókn held ég að þeir séu á villigötum. Sextugur framtíðarleiðtogi, þrunginn visku og með rökfestuna á hreinu. Svik eru auðvitað ekki svik í augum slíks manns. Margir eru þeir nú orðnir, Messíasarnir. Og hálmstráin einnig sem gripið er til svo lækna megi uppdráttarsýkina í þessum aldna stjórnmálaflokki. Helsjúkum af siðblindu og spillingu þó foringjarnir telji sig vera hreinar meyjar. Nú á að reyna að bjarga því sem bjargað verður fyrir þingkosningarnar á næsta ári. Hætt er þó við að vopnin snúist í höndunum á mönnum sem ekkert hafa lært og engu gleymt. Þegar valdasýkin ein ræður för er ekki von á góðu. Jafnvel uppskurður á hræinu myndi ekki breyta neinu. Segi menn svo að ég sé svo heltekinn af veiðidellu að ég megi ekki vera að því að koma höggi á þennan verðandi ná.

Súld. Jaðrar við rigningu. Vonandi verður stytt upp í fyrramálið þegar Siggi vinur minn vaknar. Sólskin í kortunum á sunnudag. Og hitastigið svona þolanlegt þó mikið vanti uppá dásemdirnar í skandinavíu. Af gömlum vana mun ég þrauka sumarið af hér heima. Enda þoli ég rigningu enn. Jafnvel slagveður. Gjafir veiðigyðjunnar mun ég þiggja með þökkum. Sá sem hefur upplifað Veiðivötnin í 27 gráðum í miðjum ágúst verður bljúgur yfir gjöfum þeirra. Í 600 metrum yfir sjávarmáli.Ekki blær á vanga. Og hinn þungi niður Ölfusár mun duna áfram. Þrátt fyrir tal um sífellt skítaveður á þessu útnáraskeri. Kannski er ég bara svona mikill útnári sjálfur. Og líður bara stórvel. Bestu kveðjur til allra og megi gyðjurnar vera ykkur ljúfar og góðar, ykkar Hösmagi.

Comments:
Glæsileg fréttin í Fréttablaðinu í dag um Hollvinasamtökin og viðtalið gott. Er ég ekki örugglega orðinn meðlimur?
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online