Saturday, June 03, 2006

 

Ó blessuð bæjarstjórn.

Spáin gekk eftir. Brúðkaupið var í gær. Engu skal ég spá um þessa sambúð. Óska þó brúðhjónunum velfarnaðar og vona að samfarir þeirra verði góðar eins og hjá Njáli og Bergþóru forðum. Og ég ætla líka að vona að fyrsta verkið verði að taka vel til í ráðhúsinu. Við skulum gefa nýrri bæjarstjórn frið svona fyrsta kastið. En fylgjumst með henni. Gagnrýnum hana ef þörf verður á. Mín skoðun er sú að sæmilegur friður verði í eitt ár. Tæplega mikið lengur. Sjáum til.
Samkvæmt fréttavefjum er talað um að nú skuli leiða FinnIngólfsson fram sem foringja framsóknarflokksins. Ég vissi nú að illa er komið fyrir þessum flokki. En ég reiknaði nú ekki með að menn væru endanlega búnir að tapa glórunni. Ég myndi ekki kaupa notaðan bíl af Finni Ingólfssyni. Þó ég sé nú ekki sérlega hrifinn af Dóra staðfasta væri ég þó alls óhræddur að kaupa notaðan vagn af honum. Þetta er þó á sinn hátt fagnaðarefni. Tortímingaráráttan er algjör og gangi þetta eftir kemur að því að flokkurinn fær ekki einn einasta þingmann kjörinn. Holdgervingur alls þess versta í flokknum mun sjá um að setja legsteininn á leiðið. Megi flokkurinn hvíla í friði.
Logn og sólskin á staðnum. Og fólk er strax léttklætt að morgni dags. Hitastigið rétt við 2ja stafa töluna og útlit fyrir arfablíðu í dag.
Hér á borðinu hjá mér liggur rit sem mér áskotnaðist í fyrradag. Ingólfsfjall - náttúrudjásn á Suðurlandi. Þetta rit ætla ég að drekka í mig. Guðmundur Kristinsson fyrrum bankagjaldkeri, fræðaþulur og sjálfstæðismaður vandar hryðjuverkasamtökunum ekki kveðjurnar. Ég ætla að vitna í Guðmund síðar. Læt duga að sinni að hann undrast skammsýnina, misþyrmingarnar og blygðunarleysi eyðileggingaraflanna. Telur að þessi óafturkræfu umhverfissjöll fái þungan dóm hjá komandi kynslóðum. Þetta er allt satt og rétt hjá Guðmundi. Það er til nóg af góðri möl hér í nágrenninu. Guðmundur nefnir marga staði. Allar hinar nýkjörnu sveitarstjórnir hér á svæðinu ættu nú að leggjast á eitt og stöðva þessi eyðileggingaröfl. Það yðri veglegur minnisvarði um framsýni á því herrans ári 2006.

Rauðbrönddótta dýrið var að smeygja sér inn um gluggann. Heilsaði fóstra sínum með virktum, fékk sér að éta og þrífur nú feld sinn og klær í baðvaskinum Og svo er bara að lygna aftur glyrnunum og fá sér smá morgunlúr. Undirritaður ætti líklega að gera slíkt hið sama. Með kveðju frá okkur og Ingólfsfjalli, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online