Thursday, June 01, 2006

 

Rífandi gangur.

Samkvæmt nýjustu fréttum er rífandi gangur í viðræðum sjálfstæðisflokksins og stelpunnar af ballinu. Ekki veit ég hvort Eyþór er nálægur. Kæmi það þó ekki á óvart því hann virðist eiga það sameiginlegt með guði almáttugum. Og vilji framsóknarmadömmunar er alveg kýrskýr. Eða svona eins og segir í gömlum húsgangi:

Uppí rúmið ætlar sér
unaðsstunda njóta fljótt.
Sómafljóðið sýnist mér
svæsna hafa brókarsótt.

Svo er bara að sjá hvort hjónabandið verði farsælt. Það er stundum ekki nóg að tilhugalífið sé þróttmikið. Sumum fer að leiðast að hjakka sífellt í sama farinu. Nú hefur Dóri litli boðað til neyðarfundar í flokknum sínum. Aðeins ár í þingkosningar og útlitið ekki alveg nógu gott. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvað tekið verður til bragðs. Það eru svo voðalega margir vondir við framsóknarmenn núna. Hver um annan þveran að " koma höggi á framsóknarflokkinn". Ljúga uppá hann óeðlilegum og vondum verkum í nýafstaðinni kosningabaráttu. Þetta kom berlega í ljós í kastljósinu í gærkvöldi. Smölun. Rútufarmar af fátækum pólverjum. Sem eiga að hafa rifist yfir að einn fékk 5 þúsund kall en hinir bara 3 þúsund. Jafnvel niður í þúsundkall. Auðvitað má ekki mismuna fólki svona gróflega. Gróa á Leiti hefur nú aldrei verið talin til sérstakrar fyrirmyndar. En má ekki tékka á þessu. Þetta er nú ekki fallegt ef satt er. Mörg er búmannsraunin og kannski verða raunirnar miklar ef farið yrði ofan í saumana á þessu.

Nú er veðrið aðgerðalítið eins og sagt er. Smágola og 7 gráður. Grasbalar að verða vinstri grænir.Kettir á stjái hér í kring og enn rólegt yfir mannlífinu. Svo kviknar dagurinn og tilhugalífið heldur áfram af gífurlegum sprengikrafti eftir hvíld næturinnar. Kannski verður bara brúðkaup þegar á daginn líður. Ykkar Hösmagi, með höfugan ilm árstímans í vitunum.

Comments:
Ég hef það skv. áreiðanlegum heimildum að sjálfur Steingrímur Hermannsson hafi sagt fólki fyrir kosningar að hann geti ekki hvatt fólk til að kjósa sinn gamla flokk fyrir þessar kosningar. Skal einhvern undra?
Annars hefði ég haldið að Framsókn þyrfti nú ekkert sérstaklega að vera að funda. Þeir virðast komnir í sína eilífu draumastöðu: til valda þrátt fyrir sama og ekkert umboð kjósenda. Er það ekki það sem Framsóknarflokkurinn snýst um?
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online