Wednesday, November 16, 2005

 

Enn af miðjumoði.

Sonur minn yngri commenteraði á bloggið mitt um miðjumoðið. Sagði að verstu glæpaverkin væru unnin af öfgasinnuðum stjórnmálamönnum. Margt rétt í því. Þegar ég hef verið að tala um miðjumoðið í íslenskum stjórnmálum hefur mér orðið tíðrætt um samfylkinguna og framsóknarflokkinn. Samfylkinguna sem hefur enga stefnu nema að komast að kjötkötlunum. Það er ákaflega varasamt að gagnálykta. T.d. um það að þeir sem ekki eru á miðjunni séu öfgasinnaðir. Það er auðvitað alveg fráleitt. Þetta eru rök ýmissa stjórnmálamanna. Halldór Ásgrímsson talar t.d. um að VG sé á móti öllu. Svona talar bara rökþrota fólk. VG er afgreidd með íslenskri sveitarómantík. Gamaldags þjóðernissósíalisma og eitthverju þaðanaf verra. Auðvitað er þetta ekki þannig. Og sem betur fer eru fleiri og fleiri að vitkast. Samfylkingin, þessi arftaki krata og stofukommanna í alþýðubandalaginu sáluga, þetta stefnulausa rekald, þessi gjörsamlega hugsjónalausa hjörð, mun aldrei vinna nein stór afrek í íslenskri pólítík. Kratarnir hafa t.d. alltaf stjórnað Tryggingastofnun ríkisins. Núverandi forstjóri gamall þingmaður krata, forveri hans einnig og forveri hans líka. Sitja við ketilinn og útdeila til gamla liðsins og öryrkjanna. Þeir eiga sér svo ágæta bandamenn. Pétur Blöndal t.d. Hefur enda sjálfur lýst því yfir að enginn vandi sé að lifa af 80.000 á mánuði. Og verði elli- og örorkulífeyrir hækkaður kaupi gamla liðið bara meira brennivín fyrir aurana. Ég hef ekki neina trú á að ástandið myndi skána þó samfylkingin kæmist til valda. Ég er á hinn bóginn sannfærður um að breytingar yrðu hinum tekjuminni í hag, ef Ögmundur Jónasson yrði heilbirgðisráðherra. En það eru auðvitað til öfgamenn í öllum flokkum. Líka VG. Jafnvel í moðinu á miðjunni. Líkast til nóg komið af pólitík í bili. Ég ætla að vona að enginn geti nokkurntíman kallað mig miðsækinn félagshyggjumann með réttu.

Í dag stendur til að tendra jólaljósin á Selfossi. Mér hefur nú fundist þetta nokkuð snemmt. En ég sætti mig þó vel við það. Lýsir upp þetta mikla myrkur skammdegisins á Íslandi. Bíð samt sjálfur fram í desember. Leikhúsferð á Klaufa og Kóngsdætur á sunnudaginn. Með Ingunni Önnu og Agli sterka. Raikonen gætir hússins á meðan. Spáð góðu vetrarveðri eftir frost og norðannæðing að undanförnu. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online